Fyrrverandi landsliðsmenn lausir úr varðhaldi

Voria Ghafouri hefur leikið 28 landsleiki fyrir Íran.
Voria Ghafouri hefur leikið 28 landsleiki fyrir Íran. AFP

Tveir fyrrverandi landsliðsmenn Íran í knattspyrnu voru látnir lausir úr varðhaldi í Teheran í dag, nokkrum tímum fyrir hinn mikilvæga leik íranska landsliðsins gegn Bandaríkjunum á heimsmeistaramótinu í Katar sem fer fram í kvöld.

Voria Ghafouri, 35 ára leikmaður Esteghlal í Teheran, var handtekinn í síðustu viku og sakaður um að skemma ímynd íranska landsliðsins og dreifa áróðri gegn ríkinu. Parviz Boroumand, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, var handtekinn fyrir tveimur vikum þegar hann tók þátt í mótmælagöngu í Teheran. Hann er búinn að leggja hanskana á hilluna fyrir nokkru en hann lék 20 landsleiki fyrir Íran og var varamarkvörður liðsins á HM 1998.

Iðinn við að gagnrýna yfirvöld

Samkvæmt fjölmiðlum í Íran voru þeir báðir látnir lausir gegn tryggingu en engar skýringar voru gefnar af yfirvöldum í landinu.

Ghafouri hefur verið iðinn við að gagnrýna yfirvöld í Íran, sérstaklega fyrir meðferðina á Kúrdum í landinu, sem og fyrir skert réttindi kvenna í Íran. Hann sagði fyrir nokkrum árum að það væri niðurlægjandi að konum væri ekki leyft að sækja knattspyrnuleiki karla í landinu.

Það kom talsvert á óvart þegar Carlos Queiroz landsliðsþjálfari Íran valdi 35 manna hóp sinn til undirbúnings fyrir HM í Katar að Ghafouri var ekki í hópnum. Vangaveltur hafa verið uppi um að það hafi verið vegna pólitískra skoðana hans.

mbl.is