Fyrsta konan sem dæmir á HM karla

Stéphanie Frappart.
Stéphanie Frappart. AFP/Sylvain Thomas

Stéphanie Frappart frá Frakklandi brýtur blað í sögunni á fimmtudaginn en hún verður þá fyrsta konan til að dæma leik í lokakeppni heimsmeistaramóts karla.

Frappart dæmir þá viðureign Kostaríka og Þýskalands í E-riðli keppninnar. Hún mun einnig hafa með sér tvær konur sem aðstoðardómara en það verða Neuza Back frá Brasilíu og Karen Díaz Medina frá Mexíkó.

Frappart er 38 ára gömul en hún hefur áður verið frumkvöðull í hópi kvendómara þar sem hún dæmdi leik í Meistaradeild karla árið 2020, dæmdi Meistarakeppni Evrópu árið 2019 og dæmir reglulega í efstu deild Frakklands í karlaflokki.

Hún var fjórði dómari í leik Mexíkó og Póllands á HM á dögunum.

Meðal leikja sem Frappart dæmdi í aðdraganda heimsmeistaramótsins var úrslitaleikur Portúgals og Íslands um sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna sem fram fór í Portúgal í október.

mbl.is