Minntist látins vinar með markinu

Marcus Rashford fagnar eftir að hafa skorað glæsilegt mark úr …
Marcus Rashford fagnar eftir að hafa skorað glæsilegt mark úr aukaspyrnu gegn Wales í kvöld. AFP/Javier Soriano.

Athygli vakti að Marcus Rashford horfði til himins og benti þangað eftir að hann skoraði mörk sín gegn Wales í 3:0-sigri Englendinga á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar í kvöld.

Hann var spurður um þetta á fréttamannafundi eftir leikinn. „Ég missti góðan vin fyrir nokkrum dögum en hann hafði átt í langri baráttu við krabbamein. Ég er ánægður með að hafa skorað mörkin fyrir hann, hann var mikill stuðningsmaður minn og góður vinur sem hafði áhrif á mitt líf," svaraði Rashford.

Um leikinn og frammistöðuna gegn Wales sagði Rashford að enska liðið hefði verið staðráðið í að spila betur en í markalausa jafnteflinu gegn Bandaríkjunum þar sem það var talsvert gagnrýnt.

„Eina svarið er að gera betur í næsta leik. Svona augnablik eru ástæða þess að ég spila fótbolta. Ég er afar ánægður með að við skulum vera komnir í næstu umferð á mótinu því ég hef mikinn metnað fyrir þessu liði og tel að við getum komist mun lengra," sagði Rashford.

Um aukaspyrnumarkið glæsilega sem kom enska liðinu á bragðið sagði hann: „Þetta snýst um að vera yfirvegaður og framkvæma það sem þú hefur áður gert á æfingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert