Þeir reynsluminni eru topp leikmenn sem hafa allt til brunns að bera

Didier Deschamps ásamt Kyli­an Mbappé á æfingu franska liðsins.
Didier Deschamps ásamt Kyli­an Mbappé á æfingu franska liðsins. AFP/Franck Fife

„Reynslumeiri leikmenn þurfa að leiðbeina þeim reynsluminni en þeir ungu eru virkilega efnilegir,“ sagði Didier Deschamps á fréttamannafundi fyrir leik Frakklands og Túnis í lokaumferð D-riðils heimsmeistaramóts karla í fótbolta sem fram fer á morgun í Al Rayyan í Katar.

Frakkland hefur unnið báða leiki sína í D-riðli og hefur tryggt sæti sitt í 16-liða úrslitum.

„Það eru eldri og reyndari leikmenn á meiðslalistanum svo við höfum þurft að nota leikmenn með minni reynslu af landsliðsbolta en þeir reynsluminni eru samt topp leikmenn sem hafa allt til brunns að bera. Þeir leika flestir fyrir stærstu félagslið Evrópu.“

Deschamps sagðist myndu gera breytingar á liði sínu fyrir leikinn gegn Túnis en gaf lítið uppi.

„Það verða breytingar en ég get ekki sagt hversu margar. Ég vil ekki hjálpa Túnis í sínum undirbúningi.“

mbl.is