Vítaspyrnudómurinn var rangur

Bruno Fernandes skorar úr vítaspyrnunni umdeildu.
Bruno Fernandes skorar úr vítaspyrnunni umdeildu. AFP/Pablo Porciuncula

Vítaspyrnudómurinn undir lok leiks Portúgals og Úrúgvæ á heimsmeistaramóti karla í fótbolta í gærkvöld var rangur.

Sérfræðingar ESPN hafa komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa farið vel yfir nýjustu reglugerð IFAB, alþjóðlegu reglunefndar fótboltans, þar sem skýrt er nákvæmlega hvenær skuli dæma hendi og hvenær ekki.

Bruno Fernandes skoraði úr vítaspyrnunni, sitt annað mark í leiknum, og gulltryggði Portúgal sigurinn, 2:0. Portúgal er komið áfram en Úrúgvæ er í hörðum slag um að ná öðru sæti H-riðils, og þar gæti ráðið úrslitum að hafa tapað leiknum með einu marki eða tveimur.

José Giménez, varnarmaður Úrúgvæ, féll og slæmdi hendi í boltann í leiðinni, um leið og Fernandes freistaði þess að renna boltanum á milli fóta hans og komast þannig í gott færi í vítateignum. Snerting Giménez við boltann varð til þess að færið rann út í sandinn.

Alireza Faghani dómari frá Íran hafnaði áköllum Portúgala um vítaspyrnu en myndbandadómari leiksins, Abdullah Al Marri frá Katar, ráðlagði honum hins vegar að skoða atvikið af skjá. Eftir þá skoðun benti Faghani á vítapunktinn.

Í niðurstöðu sérfræðinga ESPN segir að í reglugerð IFAB segi m.a. að ekki sé hendi þegar „handleggurinn sé notaður til stuðnings þegar leikmaður dettur eða er að standa upp frá jörðu“. Ekki  fari á milli mála að Giménez hafi gert nákvæmlega það sem reglugerðin segir til um. Aðeins hefði verið hægt að dæma vítaspyrnu í þessu tilfelli ef leikmaðurinn hefði augljóslega stöðvað boltann vísvitandi með höndinni.

Dómurinn hafi þar með verið rangur og það kunni að reynast Úrúgvæum dýrt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert