Danir án fyrirliðans

Simon Kjær í leiknum gegn Túnis í fyrstu umferðinni.
Simon Kjær í leiknum gegn Túnis í fyrstu umferðinni. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Simon Kjær, miðvörður og fyrirliði danska landsliðsins í knattspyrnu, missir af leiknum mikilvæga gegn Ástralíu á heimsmeistaramótinu í Katar en hann hefst klukkan 15.

Kjær var ekki með í ósigrinum gegn Frökkum, 1:2, vegna meiðsla í læri og Kasper Hjulmand þjálfari Dana staðfesti að hann hefði ekki náð sér í tæka tíð.

„Hann varð fyrir meiðslum í læri í leiknum gegn Túnis. Það  gekk ekki að nota hann gegn Frökkum og á æfingunni í gær fann hann enn fyrir meiðslunum. Við hefðum svo sannarlega viljað hafa fyrirliðann okkar inni á vellinum, en það var því miður ekki mögulegt," sagði Hjulmand við Danmarks Radio.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert