Meiddist á mjaðmagrind er hann skoraði

Christian Pulisic var mjög þjakaður eftir áreksturinn.
Christian Pulisic var mjög þjakaður eftir áreksturinn. AFP/Odd Andersen

Christian Pulisic reyndist hetja Bandaríkjanna þegar hann skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Íran í B-riðli HM karla í fótbolta í Katar í gærkvöldi.

Þegar Pulisic skoraði lenti hann í hörðum árekstri við Alireza Beiranvand, markvörð Írans, og lá sárþjáður lengi á eftir.

Markið kom undir lok fyrri hálfleiks og kláraði bandaríski sóknarmaðurinn hálfleikinn en gat ekki haldið leik áfram eftir það.

Var Pulisic enda fluttur á spítala þar sem hann greindist með áverka á mjaðmagrind.

Fylgst verður með ástandi hans á komandi dögum þar sem mun koma í ljós hvort Pulisic verði leikfær fyrir leik Bandaríkjanna við Holland í 16-liða úrslitum HM næstkomandi laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert