Spilaði í 12 mínútur eftir að hafa fengið heilahristing

Hlúð að Neco Williams í gærkvöldi.
Hlúð að Neco Williams í gærkvöldi. AFP/Javier Soriano

Rob Page, þjálfari karlaliðs Wales í knattspyrnu, hefur varið þá ákvörðun sína að taka ekki Neco Williams fyrr af velli í 0:3-tapinu fyrir Englandi í B-riðli HM í Katar í gærkvöldi.

Williams fékk þrumuskot Marcus Rashford í höfuðið á 24. mínútu og vankaðist við það.

Læknateymi Wales veitti honum aðhlynningu og komst að þeirri niðurstöðu að Williams gæti haldið leik áfram.

12 mínútum síðar settist hann niður á keppnisvellinum. Gekk Williams enda ekki heill til skógar og fór að lokum af velli fyrir Connor Roberts.

„Neco fékk högg á höfuðið og eðlilega er ákveðið verklag til staðar þegar kemur að heilahristingi.

Hann stóðst upphaflegu prófanirnar. Við fylgdum leiðbeiningum FIFA,“ sagði Page á blaðamannafundi eftir leikinn.

Heilaskaða góðgerðarsamtökin Headway hafa gagnrýnt ákvörðunina að leyfa Williams að halda leik áfram.

Í yfirlýsingu frá samtökunum sagði að læknum liða á HM væri þröngur stakkur sniðinn enda þyrftu þeir að taka skyndiákvörðun undir pressu þar sem heilsa leikmanns sé ekki sett í fyrsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert