Tíu leikmenn Túnis fæddir í Frakklandi

Naim Sliti og Montassar Talbi eru báðir fæddir í Frakklandi …
Naim Sliti og Montassar Talbi eru báðir fæddir í Frakklandi en spila fyrir landslið Túnis. AFP/Chandan Khanna

Túnis og Frakkland mætast í lokaumferð D-riðils HM karla í fótbolta í Katar í dag.

Frakkar hafa þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitunum og eiga efsta sætið víst.

Túnis þarf hins vegar á sigri að halda ætli liðið að fylgja Frökkum upp úr riðlinum.

Þegar 26-manna hópur Túnis er skoðaður kemur í ljós að alls tíu leikmenn eru fæddir í Frakklandi.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart enda söguleg tengsl á milli landanna. Túnis var verndarsvæði Frakklands frá 1881 til 1956, þegar Túnis hlaut fullt sjálfstæði.

„Ég hef margoft verið spurður út í þetta af vinum og vandamönnum, en fyrir mér er þetta bara fótboltaleikur.

Þrátt fyrir að við séum nokkrir leikmenn sem fæddumst í Frakklandi klæðumst við treyju Túnis með stolti og gefum allt til þess að knýja fram sigur.

Þannig að líklega er þetta sérstakara fyrir fjölskyldur okkar í Frakklandi. Sem leikmaður viltu fyrst og fremst spila eins vel og mögulegt er fyrir landsliðið þitt,“ sagði Montassar Talbi, leikmaður Túnis, á blaðamannafundi í gær.

Talbi er einn af þeim tíu leikmönnum Túnis sem fæddust í Frakklandi.

Leikmennirnir tíu:

Montassar Talbi
Mouez Hassen
Nader Ghandri
Dylan Bronn
Wajdi Kechrida
Hannibal Mejbri
Aissa Laidouni
Ellyes Skhiri
Wahbi Khazri
Naim Sliti

Leikur Túnis og Frakklands hefst klukkan 15 í dag.

mbl.is