Japan og Spánn áfram - Þýskaland úr leik

Ao Tanaka fagnar eftir að hafa komið Japan í 2:1 …
Ao Tanaka fagnar eftir að hafa komið Japan í 2:1 gegn Spáni. AFP/Philip Fong

Japan og Spánn fara í sextán liða úrslit heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu úr E-riðli mótsins í Katar en Þýskaland er úr leik.

Japanir unnu óvæntan sigur á Spánverjum, 2:1, á meðan Þjóðverjar unnu Kostaríka 4:2 eftir að hafa lent 1:2 undir í síðari hálfleiknum.

Japan vann riðilinn með 6 stig, Spánn fékk 4 stig, Þýskaland 4 stig og Kostaríka fékk 3 stig.

Japan mætir Króatíu í sextán liða úrslitum en Spánn mætir Marokkó.

Álvaro Morata skoraði fyrir Spánverja á 12. mínútu. Ritsu Doan jafnaði fyrir Japan á 48. mínútu og Ao Tanaka kom Japan yfir á 53. mínútu, 2:1, og það reyndist sigurmarkið.

Serge Gnabry skoraði fyrir Þýskaland á 10. mínútu en Yeltsin Tejeda jafnaði fyrir Kostaríka á 59. mínútu. Juan Pablo Vargas kom Kostaríka yfir á 71. mínútu. Kai Havertz jafnaði fyrir Þýskaland á 73. mínútu og skoraði aftur á 85. mínútu. Niclas Füllkrug kom Þýskalandi í 4:2 á 90. mínútu.

Keylor Navas, hinn snjalli markvörður Kostaríka, þurfti að verja skot strax á 2. mínútu frá Jamal Musiala.

Japanir fengu fyrsta færið í leiknum við Spánverja á 8. mínútu þegar Junya Ito komst inn að markteigshorni hægra megin en skaut í hliðarnetið.

Serge Gnabry horfir á eftir boltanum í mark Kostaríka þegar …
Serge Gnabry horfir á eftir boltanum í mark Kostaríka þegar hann kom Þýskalandi yfir á 10. mínútu leiksins. AFP/Odd Andersen

Þýskaland náði forystunni gegn Kostaríka á 10. mínútu þegar Serge Gnabry skoraði með skalla af markteig eftir fyrirgjöf David Raum frá vinstri, 1:0 fyrir Þýskaland.

Spánverjar náðu forystunni gegn Japan á 12. mínútu. Cesar Azpilicueta sendi fyrir mark Japan frá hægri og Álvaro Morata skoraði með skalla af markteig, 1:0 fyrir Spán. 

Þar með var staðan orðin þannig að Spánn myndi vinna riðilinn og Þýskaland ná öðru sætinu ef leikirnir enduðu svona. Jöfnunarmark frá Japönum myndi breyta stöðunni þeim í hag.

Álvaro Morata fagnar eftir að hafa komið Spánverjum yfir gegn …
Álvaro Morata fagnar eftir að hafa komið Spánverjum yfir gegn Japan. AFP/Adrian Dennis

Keylor Navas varði aftur vel á 34. mínútu þegar Þjóðverjinn Joshua Kimmich átti gott skot á mark Kostaríka. Rétt á eftir komst Jamal Musiala í gott færi í vítateig Kostaríka en hitti ekki markið. Þá komst Serge Gnaby í færi í vítateignum á 40. mínútu en skaut rétt framhjá markinu.

Kostaríka var hins vegar nærri því að jafna á 42. mínútu þegar Keysher Fuller átti hörkuskot á mark Þjóðverja sem Manuel Neuer varði naumlega með því að slá boltann yfir þverslána.

Japanir sönkuðu að sér gulum spjöldum á lokakafla fyrri hálfleiks þegar þeir fengu þrjú gul spjöld á sex mínútna kafla.

Ritsu Doan fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Japan, 1:1, …
Ritsu Doan fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Japan, 1:1, gegn Spánverjum. AFP/Jewel Samad

Þegar flautað var til hálfleiks var Spánn með forystu, 1:0, gegn Japan og Þýskaland með forystu, 1:0, gegn Kostaríka. Spánverjar voru með boltann 83 prósent fyrri hálfleiks og Þjóðverjar 71 prósent í sínum leik.

Allir fjórir þjálfararnir gerðu breytingar á sínum liðum fyrir síðari hálfleikinn.

Ritsu Doan, sem kom inn á í hálfleik hjá Japönum, jafnaði metin gegn Spánverjum í 1:1 á 48. mínútu með glæsilegu skoti frá vítateig.

Þar með þurftu Þjóðverjar annað mark gegn Kostaríka, að öðrum kosti  væru þeir fallnir úr keppni.

Japanir létu kné fylgja kviði og á 51. mínútu skoraði Ao Tanaka af stuttu færi. Eftir tveggja mínútna skoðun myndbandsdómara á því hvort boltinn hefði farið aftur fyrir endamörk rétt á undan, þegar Kaoru Mitoma sendi boltann inn í markteiginn, var markið úrskurðað gilt.

Kostaríka jafnaði gegn Þýskalandi á 59. mínútu, 1:1, þegar Yeltsin Tejeda skoraði með föstu skoti af stuttu færi, eftir að Manuel Neuer varði glæsilega skalla frá Kendall Waston.

Yeltsin Tejeda fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Kostaríka gegn …
Yeltsin Tejeda fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Kostaríka gegn Þýskalandi, 1:1. AFP/Franck Fife

Þar með var komin upp sú staða að Þýskaland væri á heimleið, og jafnframt að eitt mark í viðbót frá Kostaríka myndi geta sent Spánverja heim af mótinu.

Antonio Rüdiger var nærri því að koma Þjóðverjum yfir á ný þegar hann átti skot í stöngina á marki Kostaríka á 63. mínútu. Og aftur small boltinn í stöng Kostaríkamanna á 67. mínútu eftir skot frá Jamal Musiala.

Ævintýrin héldu áfram að gerast á 70. mínútu þegar Kostaríka komst yfir gegn Þýskalandi, 2:1, þegar Juan Pablo Vargas skoraði af stuttu færi.

Og þar með var staðan orðin þannig að Spánn og Þýskaland væru bæði á heimleið en Kostaríka og Japan á leið í sextán liða úrslit ef þetta yrðu lokaúrslitin!

Forysta Kostaríka entist ekki lengi því Kai Havartz jafnaði fyrir Þýskaland á 73. mínútu, 2:2, þegar fékk sendingu frá Niclas Füllkrug og lyfti boltanum yfir Keylor Navas og í netið.

Þar með voru Spánverjar komnir í annað sætið á ný, á eftir Japönum!

Keylor Navas í marki Kostaríka varði stórkostlega af örstuttu færi á 76. mínútu.

Joel Campbell sóknarmaður Kostaríka og Ilkay Gündogan miðjumaður Þýskalands í …
Joel Campbell sóknarmaður Kostaríka og Ilkay Gündogan miðjumaður Þýskalands í baráttunni í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Kai Havertz skoraði aftur á 85. mínútu og kom Þýskalandi í 3:2 gegn Kostaríka eftir fyrirgjöf frá Serge Gnabry. Það var ekki nóg, þýska liðið þurfti á því að halda að Spánn myndi jafna gegn Japan.

Dani Olmo komst í mjög gott færi á 90. mínútu en markvörður Japan varði vel frá honum.

Varamaðurinn Niclas Füllkrug kom Þýskalandi í 4:2 gegn Kostaríka á 90. mínútu, sendi boltann í tómt markið eftir sendingu frá Leroy Sané. Þýska liðið þurfti samt enn að treysta á jöfnunarmark Spánverja til að komast áfram.

Þegar flautað var til leiksloka hjá Japan og Spáni og Japanir fögnuðu sigri, 2:1, var ljóst að bæði liðin væru komin áfram og Þýskaland væri úr leik.

Stéphanie Frappart dæmir í kvöld fyrst kvenna í lokakeppni HM …
Stéphanie Frappart dæmir í kvöld fyrst kvenna í lokakeppni HM karla, leik Kostaríka og Þýskalands. Þrjár konur skipa dómaratríóið. AFP/Ina Fassbender

Lið Spánar:
Mark: Unai Simon.
Vörn: César Azpilicueta (Daniel Carvajal 46.), Rodri, Pau Torres, Alejandro Balde (Jordi Alba 68.)
Miðja: Gavi (Ansu Fati 68.), Sergio Busquets, Pedri.
Sókn: Nico Williams (Ferran Torres 57.), Álvaro Morata (Marco Asensio 57.), Dani Olmo.

Lið Japan:
Mark: Shuichi Gonda.
Vörn: Ko Itakura, Maya Yoshida, Shogo Taniguchi.
Miðja: Junya Ito, Hidemasa Morita, Ao Tanaka (Wataru Endo 87.), Yuto Nagatomo (Kaoru Mitoma 46.)
Sókn: Daichi Kamada (Takehiro Tomiyasu 69.), Daizen Maeda (Takuma Asano 61.), Takefusa Kubo (Ritsu Doan 46.)

Lið Kostaríka:
Mark: Keylor Navas.
Vörn: Óscar Duarte, Kendall Waston, Juan Pablo Vargas.
Miðja: Keysher Fuller (Jewison Bennette 74.), Celso Borges, Yeltsin Tejada (Roan Wilson 90.), Brian Oviedo (Anthony Contreras 90.)
Sókn: Brandon Aguilera (Youstin Salas 46.), Johan Venegas (Ronald Matarrita 74.), Joel Campbell.

Lið Þýskalands:
Mark: Manuel Neuer.
Vörn: Joshua Kimmich, Niklas Süle (Matthias Ginter 90.), Antonio Rüdiger, David Raum (Mario Götze 67.)
Miðja: Ilkay Gündogan (Niclas Füllkrug 55.), Jamal Musiala, Leon Goretzka (Lukas Klostermann 46.)
Sókn: Serge Gnabry, Thomas Müller (Kai Havertz 67.), Leroy Sané.

Allt til reiðu fyrir leik Spánar og Japan á Khalifa …
Allt til reiðu fyrir leik Spánar og Japan á Khalifa International leikvanginum í Doha í kvöld. AFP/Giuseppe Cacace
Þýski markvörðurinn Manuel Neuer
Þýski markvörðurinn Manuel Neuer AFP/Franck Fife
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert