Ég ætla ekki að borga Messi

Wojciech Szczesny ver vítaspyrnu Lionel Messi í gærkvöldi.
Wojciech Szczesny ver vítaspyrnu Lionel Messi í gærkvöldi. AFP/Glyn Kirk

Wojciech Szczesny, markvörður karlaliðs Póllands í knattspyrnu, kveðst hafa veðjað við Argentínumanninn Lionel Messi að dómari leiks liðanna á HM í Katar í gærkvöldi myndi ekki dæma vítaspyrnu.

Szczesny reyndi að ná til fyrirgjafar og sló þá í höfuð Messi. Eftir athugun í VAR ákvað hollenski dómarinn Danny Makkelie að dæma vítaspyrnu, sem þótti heldur harður dómur.

„Við ræddum saman fyrir vítaspyrnuna. Ég veðjaði 100 evrum við hann að dómarinn myndi ekki gefa vítaspyrnu. Þannig að ég er búinn að tapa veðmáli gegn Messi.

Ég veit ekki hvort það sé leyfilegt. Ég fæ örugglega bann fyrir veðmálið. Mér er alveg sama um það núna!,“ sagði Szczesny í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV 2 Sport eftir leik.

Pólski markvörðurinn gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna en Argentína vann þó leikinn að lokum 2:0. Pólland fylgdi svo Argentínu upp úr C-riðlinum í 16-liða úrslit HM á betri markatölu en Mexíkó.

„Ég ætla ekki heldur að borga honum, látum ekki svona, honum er alveg sama um 100 evrur!“ sagði Szczesny í léttum dúr að lokum.

mbl.is