Ekki ég sem klúðraði vítaspyrnunni

Luis Suárez á blaðamannafundinum í dag.
Luis Suárez á blaðamannafundinum í dag. AFP/Pablo Porciuncula

Luis Suárez, sóknarmaður Úrúgvæ, hefur ekki í hyggju að biðjast afsökunar á því þegar hann varði með höndum á marklínu í leik gegn Gana í 8-liða úrslitum HM 2010 í knattspyrnu karla í Suður-Afríku.

Gana fékk því dæmda vítaspyrnu og Suárez beint rautt spjald.

Asamoah Gyan klúðraði vítaspyrnunni hins vegar með því að skjóta í þverslánna og yfir markið og einum leikmanni færri vann Úrúgvæ leikinn að lokum í vítaspyrnukeppni og komst í undanúrslit.

Ganverska þjóðin er ekki mjög hrifin af uppátæki Suárez og var hann minntur á það af blaðamanni frá Gana á blaðamannafundi í dag.

Blaðamaðurinn notaði tækifærið til þess að spyrja Suárez hvort hann hygðist biðjast afsökunar á markvörslunni afdrifaríku.

„Ég mun ekki biðjast afsökunar. Leikmaður Gana klúðraði vítaspyrnunni, ekki ég. Ég fékk rautt spjald.

Ef ég hefði meitt leikmann þá myndi ég biðjast afsökunar. Það var ekki mér að kenna að hann skoraði ekki úr vítaspyrnunni,“ svaraði Suárez.

Gana og Úrúgvæ mætast í lokaumferð H-riðils HM 2022 í Katar á morgun þar sem Ganverjar freista þess að ná fram hefndum, en liðinu gæti nægt jafntefli til þess að tryggja sæti í 16-liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert