Helmingslíkur á að Ronaldo spili

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP/Kirill Kudravtsev

Óvíst er hvort Cristiano Ronaldo, fyrirliði karlaliðs Portúgals í knattspyrnu, geti tekið þátt í leik liðsins gegn Suður-Kóreu í lokaumferð H-riðils HM í Katar á morgun vegna meiðsla.

Ronaldo missti af æfingu liðsins í gær og sagði Fernando Santos landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í dag að það þyrfti að koma í ljós hvort hann verði leikfær á morgun.

„Ég myndi segja að það séu svona helmingslíkur á því að hann geti spilað, við sjáum hvað setur,“ sagði Santos.

Ronaldo tók þátt í æfingu liðsins í dag.

Portúgal hefur þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum HM með því að vinna Gana og Úrúgvæ í fyrstu tveimur umferðum H-riðilsins en Santos vill helst vinna Suður-Kóreu á morgun til þess að gulltryggja efsta sætið í riðlinum.

„Að vinna og hafna í efsta sæti í riðlinum skiptir okkur sköpum, því þá höfum við aukadag til að jafna okkur,“ sagði hann.

Jafntefli nægir Portúgal til þess að tryggja efsta sætið í riðlinum og liðið gæti raunar haldið því það tapi á morgun, en það fer eftir úrslitum leiks Gana og Úrúgvæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert