Marokkó og Króatía áfram – Belgía úr leik

Romelu Lukaku fór illa með nokkur færi.
Romelu Lukaku fór illa með nokkur færi. AFP/Ozan Kose

Marokkó og Króatía tryggðu sér í dag sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar. Marokkó tryggði sér toppsæti F-riðils með 2:1-sigri á Kanada á meðan Króatía fór áfram með markalausu jafntefli gegn Belgíu. Belgía er hins vegar úr leik. 

Lokatölur í leik Króatíu og Belgíu urðu 0:0. 

Marokkó vann Kanada, 2:1. Hakim Ziyech kom Marokkó yfir á 4. mínútu. Youssef En-Nesyri tvöfaldaði forskotið á 23. mínútu. Nayef Aguerd skoraði sjálfsmark á 40. mínútu og minnkaði muninn. 

Romelu Lukaku skallar að marki Króata.
Romelu Lukaku skallar að marki Króata. AFP/Ozan Kose

Marokkó endaði því með 7 stig og mætir liðinu sem endar í öðru sæti E-riðilsins í kvöld. Króatía fékk 5 stig og mætir sigurliði E-riðilsins. Belgía með 4 stig og stigalausir Kanadamenn eru úr leik. 

Króatía byrjaði betur gegn Belgíu og Ivan Perisic var nálægt því að skora eftir aðeins nokkrar sekúndur en hann skaut framhjá úr góðu færi. 

Marokkó byrjaði enn betur gegn Kanada, því strax á fjórðu mínútu skoraði Hakim Ziyech með skoti af löngu færi eftir skógarhlaup hjá Milan Borjan í marki Kanada. Marokkó var þar með komið á topp riðilsins og á leiðinni áfram með Króatíu. 

Youssef En-Nesyri fagnar öðru marki Marokkó í dag.
Youssef En-Nesyri fagnar öðru marki Marokkó í dag. AFP/Paul Ellis

Belgía sótti í sig veðrið, eftir erfiða byrjun, og bæði Dries Mertens og Yannick Carrasco fengu fín færi en Livakovic varði frá Carrasco og Mertens skaut rétt framhjá. Króatíumenn héldu að þeir væru að fá víti eftir rúmlega korters leik, en hætt var við dóminn vegna rangstöðu í aðdragandanum. 

Marokkó tvöfaldaði forskotið á 23. mínútu þegar Youssef En-Nesyri slapp einn í gegn, eftir sendingu frá Achraf Hakimi, og kláraði með föstu skoti framhjá Borjan í markinu. Kanada fékk líflínu gegn Marokkó á 40. mínútu þegar Nayef Aguerd skoraði sjálfsmark eftir góða fyrirgjöf frá Sam Adekugbe frá vinstri og minnkaði muninn í 2:1. Reyndist það síðasta mark fyrri hálfleiks. 

Anthony Taylor hætti við að dæma víti eftir skoðun í …
Anthony Taylor hætti við að dæma víti eftir skoðun í VAR. AFP/Gabriel Bouys

Belgar þurftu að skora gegn Króatíu til að fara áfram, en Króatar voru líklegri og Marko Livaja skallaði rétt yfir á 33. mínútu. Ekkert mark var hins vegar skorað í fyrri hálfleik og Króatía því á leiðinni áfram og Belgía á leiðinni heim. 

Romelu Lukaku leysti Driest Mertens af hólmi fyrir seinni hálfleikinn og hann átti hættulegan skalla á 49. mínútu en Dominik Livakovic í marki Króata varði frá honum. Mínútu síðar átti Mateo Kovacic hættulegt skot að marki Belga en þá varði Thibaut Courtois í marki Belgíu vel. 

Hakim Ziyech við það að skora eftir mistök hjá Milan …
Hakim Ziyech við það að skora eftir mistök hjá Milan Borjan í marki Kanada. AFP/Patrick Fallon

Króatía hélt áfram að sækja og Marcelo Brozovic átti hættulegt skot að marki nokkrum mínútum síðar en aftur varði Courtois vel. Belgíski markvörðurinn varði svo enn og aftur vel frá Luka Modric nokkrum sekúndum síðar. Inn vildi boltinn hins vegar ekki og var staðan enn markalaus og Króatía á leiðinni áfram með Marokkó. 

Það breyttist næstum því á 60. mínútu þegar Yannick Carrasco slapp í gegn en Livakovic varði frá honum. Boltinn barst svo á Romelu Lukaku sem skaut í stöngina og Króatarnir sluppu með skrekkinn. 

Leikmenn Belga og Króata gera sig klára.
Leikmenn Belga og Króata gera sig klára. AFP/Alfredo Estrella

Kanada var hársbreidd frá því að jafna gegn Marokkó á 72. mínútu þegar Atiba Hutchinson skallaði í slána. Marokkómenn sluppu með skrekkinn og voru áfram í toppsæti riðilsins. 

Belgar fengu afar gott færi á lokamínútunni en Lukaku hitti ekki boltann, nánast upp við markið. Lukaku fékk fjölmörg færi í seinni hálfleiknum, fór illa með þau, og Króatía fór því áfram í 16-liða úrslit með Marokkó.  

Stuðningfólk Marokkó bíður spennt eftir að sjá hvort þeirra lið …
Stuðningfólk Marokkó bíður spennt eftir að sjá hvort þeirra lið komist í sextán liða úrslitin. AFP/Miguel Medina

Lið Króatíu:
Mark: Dominik Livakovic.
Vörn: Josip Juranovic, Dejan Lovren, Josko Gvardiol, Borna Sosa. 
Miðja: Luka Modric, Marcelo Brozovic, Mateo Kovacic (Lovro Majer 90.). 
Sókn: Andrej Kramaric (Mario Pasalic 64.), Marko Livaja (Bruno Petkovic 64.), Ivan Perisic. 

Lið Belgíu:
Mark: Thibaut Courtois. 
Vörn: Leander Dedoncker (Youri Tielemans 72.), Toby Alderweireld, Jan Vertonghen. 
Miðja: Thomas Meunier (Eden Hazard 87.), Kevin De Bruyne, Axel Witsel, Timonthy Castagne. 
Sókn: Leandro Trossard (Thorgan Hazard 58.), Dries Mertens (Romelu Lukaku 46.), Yannick Carrasco (Jeremy Doku 72.). 

Lið Marokkó:
Mark: Bono. 
Vörn: Achraf Hakimi (Yahaya Jabrane 85.), Nayef Aguerd, Romain Saiss, Noussair Mazraoui. 
Miðja: Azzedine Ounahi (Jawad El Yamiq 77.), Sofyan Amrabat, Abdelhamid Sabiri (Selim Amallah 65.). 
Sókn: Hakim Ziyech (Abderrazak Hamdallah 76.), Youssef En-Nesyri, Sofiane Boufal (Zakaria Aboukhal 65.). 

Lið Kanada:
Mark: Milan Borjan. 
Vörn: Alistair Johnson, Steven Vitoria, Kamal Miller. 
Miðja:Sam Adekugbe (Ismael Koné 60), Jonathan Osorio (Richie Laryea 65.), Mark-Anthony Kaye (Atiba Hutchinson 60.), Alphonso Davies. 
Sókn: Tajon Buchanan, Cyle Larin (Jonathan David 60.), Junior Hoilett (David Wotherspoon 76.). 

mbl.is