Þetta er algjört hneyksli

Thomas Müller gæti hafa spilað sinn síðasta landsleik í kvöld.
Thomas Müller gæti hafa spilað sinn síðasta landsleik í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Thomas Müller, einn af reyndustu leikmönnum þýska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var harðorður eftir leikinn gegn Kostaríka á heimsmeistaramótinu í Katar í kvöld.

Þjóðverjar unnu reyndar 4:2 en Japanir unnu Spánverja á sama tíma og þar með var ljóst að þýska liðið myndi enda í þriðja sæti riðilsins og hefði lokið keppni á mótinu.

„Þetta er algjört hneyksli og ég veit ekki hvað tekur við. Ef þetta var minn síðasti leikur fyrir landsliðið, þá vil ég segja nokkur orð við stuðningsfólk okkar: Herrar mínir og frúr, þetta var ánægjulegur  tími og við áttum okkar stóru stundir," sagði Müller við fréttamenn.

Honum tókst síðan að koma að rígnum á milli Bayern München og Barcelona. „Það er ótrúlegt að Spánverjar skyldu ákveða að tapa fyrir Japan, bara til að koma í veg fyrir að við kæmumst í sextán liða úrslit. Við munum hefna okkar í hvert skipti sem við mætum Barcelona," sagði hinn 33 ára gamli Müller sem varð heimsmeistari með Þjóðverjum 2014 en síðan hefur fallið með þeim út í riðlakeppni HM tvisvar í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert