Vill halda áfram með liðið

Hansi Flick gengur vonsvikinn af velli eftir leikinn í kvöld.
Hansi Flick gengur vonsvikinn af velli eftir leikinn í kvöld. AFP/Franck Fife

Það var enginn uppgjafartónn í Hansa Flick, þjálfara þýska karlalandsliðsins í fótbolta, eftir að það féll úr keppni á heimsmeistaramótinu í Katar í kvöld.

„Ég nýt þess eins og áður að þjálfa þetta lið. Hvað sjálfan mig varðar er ég tilbúinn til að halda áfram. Ég er strax farinn að hlakka til Evrópumótsins. Auðvitað erum við afar vonsviknir en gleymum því ekki að við eigum marga góða leikmenn," sagði Flick eftir 4:2 sigurinn á Kostaríka sem reyndist ekki duga til að koma liðinu í sextán liða úrslit.

„Það er fullt af hæfileikaríkum leikmönnum í Þýskalandi en við þurfum að byrja á að greina hvað fór úrskeiðis. Við töpuðum fyrir Japan vegna þess að við spiluðum illa í 20 mínútur. Þess vegna erum við á heimleið," sagði Hansi Flick.

Þjóðverjar verða gestgjafar á næsta stórmóti sem er Evrópumótið sumarið 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert