Af hverju ekki að dreyma um heimsmeistaratitilinn?

Walid Regragui, þjálfara Marokkó, fleygt upp í loftið af leikmönnum …
Walid Regragui, þjálfara Marokkó, fleygt upp í loftið af leikmönnum sínum eftir sigur á Kanada í gær. AFP/Miguel Medina

Walid Regragui, þjálfari karlaliðs Marokkó í knattspyrnu, segir að liðið megi alveg láta sig dreyma um að verða heimsmeistarar eftir að það vann F-riðil HM í Katar í gær.

Marokkó var í riðli með Króatíu og Belgíu en vann sér inn 7 stig og vann riðilinn með stæl. Króatía hafnaði í öðru sæti en Belgar eru úr leik.

Á blaðamannafundi eftir leik var Regragui spurður hvort lið Marokkó væri líklegt til að vinna HM. Hann leit til Achraf Hakimi, lykilmanns liðsins sem sat fundinn með Regragui, brosti og svaraði:

„Við settum okkur það markmið að gefa allt sem við áttum til að komast upp úr riðlinum. Eftir það, af hverju ekki? Stefnum sem hæst.

Við þurfum að breyta hugarfari okkar og við verðum erfiður andstæðingur að eiga við. Af hverju ekki að dreyma um að vinna þennan titil? Við afrísku liðin þurfum að setja okkur þetta markmið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert