Sviss síðasta liðið í sextán liða úrslit - Kamerún vann Brasilíu

Remo Freuler fagnar eftir að hafa komið Sviss í 3:2 …
Remo Freuler fagnar eftir að hafa komið Sviss í 3:2 eftir glæsilegt spil Svisslendinga. AFP/Manan Vatsyayana

Sviss varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum heimsmeistarakeppni karla í fótbolta í Katar með því að sigra Serbíu 3:2 í lokaumferð G-riðils.

Kamerún vann Brasilíu 1:0 en það dugði ekki til. Brasilía vann riðilinn með 6 stig, Sviss fékk 6 stig, Kamerún 4 og Serbía eitt stig.

Brasilía mætir Suður-Kóreu í sextán liða úrslitum og Sviss leikur við Portúgal.

Xherdan Shaqiri skoraði á 20. mínútu fyrir Sviss en Aleksandar Mitrovic jafnaði fyrir Serbíu á 26. mínútu og Dusan Vlahovic kom Serbum í 2:1 á 35. mínútu. Breel Embolo jafnaði fyrir Sviss, 2:2, á 44. mínútu. Remo Freuler kom Sviss í 3:2 á 48. mínútu og það reyndist sigurmarkið.

Vincent Aboubakar skoraði sigurmark Kamerún gegn Brasilíu, 1:0, á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Sviss byrjaði með látum og fékk tvö færi á fyrstu hálfu mínútunni þar sem Vanja Milinkovic-Savic í marki Serba varði tvisvar vel, í fyrra skiptið af stuttu færi frá Breel Embolo og síðan fast skot frá Granit Xhaka.

Í leik Kamerún og Brasilíu var ekkert gefið frá byrjun og einn leikmaður úr hvoru liði var kominn með gult spjald eftir sjö mínútna leik. Tite, þjálfari Brasilíu, gerði níu breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn enda Brassarnir þegar komnir áfram.

Serbar voru heldur betur nálægt því að skora á 11. mínútu þegar Andrija Zivkovic átti hörkuskot rétt fyrir utan vítateig og boltinn small í stöng svissneska marksins.

Brasilíumaðurinn Gabriel Martinelli átti hörkuskalla að marki Kamerún á 14. mínútu sem Devis Epassy varði vel í horn.

Xherdan Shaqiri fagnaði mjög hóflega eftir að hann kom Sviss …
Xherdan Shaqiri fagnaði mjög hóflega eftir að hann kom Sviss yfir gegn Serbíu á 20. mínútu. AFP/Ina Fassbender

Sviss komst yfir á 20. mínútu. Ricardo Rodriguez átti mikinn sprett upp vinstri kantinn og sendi inn í teiginn. Djibril Sow renndi boltanum á Xherdan Shaqiri sem skoraði með föstu skoti úr miðjum vítateig, 1:0 fyrir Sviss.

Serbía jafnaði gegn Sviss á 36. mínútu. Dusan Tadic átti frábæra sendingu inn að vítapunkti á Aleksandar Mitrovic sem skoraði með fallegum skalla í hægra hornið, 1:1.

Aleksandar Mitrovic (9) horfir á eftir boltanum í netið þegar …
Aleksandar Mitrovic (9) horfir á eftir boltanum í netið þegar hann jafnaði fyrir Serba, 1:1, gegn Sviss. AFP/Fabrice Coffrini

Xherdan Shaqiri var nálægt því að koma Sviss yfir á ný á 30. mínútu þegar hann slapp inn í vítateig Serba og átti skot hárfínt framhjá marki þeirra.

Serbar komust yfir gegn Sviss, 2:1, á 35. mínútu. Dusan Vlahovic fékk boltann inn í miðjan vítateig frá Dusan Tadic og renndi honum af harðfylgi í hægra hornið. Þar með voru Serbar komnir í annað sætið í riðlinum og upp fyrir Sviss.

Svisslendingar náðu hraðri sókn á 44. mínútu, Silvan Vidmar sendi boltann fyrir markið frá hægri og Breel Embolo stakk sér inn í vítateiginn og jafnaði metin í 2:2.

Dusan Vlahovic kemur Serbum í 2:1.
Dusan Vlahovic kemur Serbum í 2:1. AFP/Patrick T. Fallon

Gabriel Martinelli framherji Brasilíu átti hörkuskot á mark Kamerún á 45. mínútu og Devis Epassy varði vel í horn.

Kamerún fékk gott færi í lok uppbótartímans, Bryan Mbeumo átti góðan skalla sem Ederson í marki Brasilíu varði vel.

Þegar flautað var til hálfleiks var sama staða og í byrjun leiks, hvað stigin varðaði. Jafnt var hjá Sviss og Serbíu, 2:2, og 0:0 hjá Brasilíu og Kamerún. Sviss var á leið í sextán liða úrslitin ef þetta yrði lokaniðurstaðan. Kamerún þurfti hins vegar aðeins eitt mark til að fara upp í annað sætið.

Breel Embolo jafnar metin fyrir Sviss í 2:2 gegn Serbíu …
Breel Embolo jafnar metin fyrir Sviss í 2:2 gegn Serbíu í kvöld. AFP/Manan Vatsyayana

Sviss komst yfir gegn Serbíu, 3:2, á 48. mínútu með glæsilegu marki. Shaqiri sendi inn í vítateiginn á Ruben Vargas sem gaf hælsendingu á Remo Freuler og hann afgreiddi boltann laglega í netið.

Devis Epassy markvörður Kamerún varði tvisvar vel á 56. mínútu frá Gabriel Martinelli og frá Bremer í kjölfarið.

Manuel Akanji var nærri því að skora  fyrir Sviss úr aukaspyrnu á 83. mínútu en átti fast skot í hliðarnetið hægra megin.

Brasilíumenn réðu ferðinni mestallan síðari hálfleik gegn Kamerún en fengu engin dauðafæri, nokkur hálffæri.

Christian Fassnacht komst í gott  færi á 90. mínútu en Vanja Milinkovic-Savic í marki Serbíu varði vel frá honum með úthlaupi utarlega í vítateignum.

Vincent Aboubakar kom Kamerún yfir gegn Brasilíu á þriðju mínútu uppbótartíma með fallegu skallamarki eftir skyndisókn og fyrirgjöf frá hægri, 1:0.

Vincent Aboubakar fagnar sigurmarki Kamerún gegn Brasilíu. Hann reif sig …
Vincent Aboubakar fagnar sigurmarki Kamerún gegn Brasilíu. Hann reif sig úr treyjunni, fékk fyrir vikið sitt annað gula spjald og var því rekinn af velli. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Aboubakar fékk annað gult spjald, fyrir að fara úr treyjunni þegar hann skoraði, og var rekinn af velli.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma hjá Serbíu og Sviss sauð upp úr milli leikmanna en það var leyst með einu gulu spjaldi á hvort lið.

Fleiri urðu mörkin ekki. Sviss vann Serbíu, 3:2, og Kamerún sigraði Brasilíu, 1:0. Sviss var aðeins einu marki frá því að fara upp fyrir Brasilíu og vinna riðilinn.

Lið Serbíu:
Mark: Vanja Milinkovic-Savic.
Vörn: Nikola Milenkovic, Milos Veljkovic (Nemanja Gudelj 55.), Strahinja Pavlovic.
Miðja: Andrija Zivkovic (Nemanja Radoncic 78.), Sergej Milinkovic-Savic (Nemanja Maksimovic 68.), Dusan Tadic (Filip Djuricic 78.), Sasa Lukic, Filip Kostic.
Sókn: Aleksandar Mitrovic, Dusan Vlahovic (Luka Jovic 55.)

Lið Sviss:
Mark: Gregor Kobel.
Vörn: Silvan Widmer, Manuel Akanji, Fabian Schär, Ricardo Rodriguez.
Miðja: Remo Freuler, Djibril Sow (Edimilson Fernandes 68.), Granit Xhaka.
Sókn: Xherdan Shaqiri (Denis Zakaria 68.), Breel Embolo (Noah Okafor 90.), Ruben Vargas (Christian Fassnacht 83.)

Lið Brasilíu:
Mark: Ederson.
Vörn: Dani Alves, Bremer, Eder Militao, Alex Telles (Marquinhos 55.)
Miðja: Fred (Bruno Guimaraes 55.), Fabinho, Rodrygo (Everton Ribeiro 55.)
Sókn: Antony (Raphinha 79.), Gabriel Jesus (Pedro 64.), Gabriel Martinelli.

Lið Kamerún:
Mark: Devis Epassy.
Vörn: Collins Fai, Christopher Wooh, Enzo Ebosse, Nouhou Tolo.
Miðja: Pierre Kunde (Olivier Ntcham 68.), Frank Anguissa, Nicolas Moumi Ngamaleu (Jerome Ngom Mbekeli 86.)
Sókn: Vincent Aboubakar, Eric Choupo-Moting, Bryan Mbeumo (Karl Toko Ekambi 64.)

Eric Maxim Choupo-Moting framherji Kamerún og Fabinho miðjumaður Brasilíu í …
Eric Maxim Choupo-Moting framherji Kamerún og Fabinho miðjumaður Brasilíu í baráttunni í kvöld. AFP/Iossouf Sanogo
Vanja Milinkovic-Savic markvörður Serba ver frá Granit Xhaka á fyrstu …
Vanja Milinkovic-Savic markvörður Serba ver frá Granit Xhaka á fyrstu mínútu í leiknum við Sviss. AFP/Andrej Isakovic
Lusail-leikvangurinn þar sem leikur Brasilíu og Kamerún fer fram í …
Lusail-leikvangurinn þar sem leikur Brasilíu og Kamerún fer fram í kvöld. AFP/Anne Christine Pouloulat
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert