Miði frá Dönum virtist enda í höndum Ástrala (myndskeið)

Ástralir fagna sigrinum á Danmörku á miðvikudag.
Ástralir fagna sigrinum á Danmörku á miðvikudag. AFP/Francois-Xavier Marit

Forvitnilegt atvik virtist eiga sér stað þegar Ástralía hafði betur gegn Danmörku í D-riðli HM karla í fótbolta á miðvikudag þegar Ástralir tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum mótsins með 1:0-sigri.

Á 69. mínútu gerðu Danir skiptingu þar sem varamaðurinn Robert Skov rétti Christian Eriksen miða með leiðbeiningum frá Kasper Hjulmand landsliðsþjálfara.

Stuttu síðar lítur út fyrir að ástralska þjálfarateymið sé komið með miðann, sem hefur að öllum líkindum innihaldið taktískar leiðbeiningar, í sínar hendur.

Nokkrum mínútum síðar bregðast Ástralir við með því að setja varnarmann inn á og breyta í afar varnarsinnað 5-4-1 leikkerfi. Ástralía tryggði sér að lokum sigur og farseðilinn í 16-liða úrslit.

Leiða má að því líkum að skilaboðin á miðanum hafi verið á dönsku en í því samhengi er athyglisvert að styrktarþjálfari Ástralíu, Andrew Clark, er einnig styrktarþjálfari Danmerkurmeistara FC Köbenhavn og því vís til þess að búa yfir grunnskilningi á dönsku hið minnsta.

Á 39. sekúndu í myndskeiðinu hér að neðan má sjá Clark, íklæddan vínrauðu vesti, halda á miða þar sem Graham Arnold, landsliðsþjálfari Ástralíu, og aðstoðarþjálfari hans ræða stuttlega við Clark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert