Suður-Kórea áfram með Portúgal eftir dramatík

Hwang Hee-chan fagnar því að koma Suður-Kóreu yfir.
Hwang Hee-chan fagnar því að koma Suður-Kóreu yfir. AFP/Odd Andersen

Suður-Kórea tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta með 2:1-sigri á Portúgal í lokaumferð H-riðils í dag. Portúgal hafði þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitunum.

Úrúgvæ vann 2:0-sigur á Gana, en það dugði ekki til þess að fara áfram og er Úrúgvæ því úr leik, eins og Gana. 

Leikur Gana og Úrúgvæ endaði 0:2. Giorgian De Arrascaeta kom Úrúgvæ yfir á 27. mínútu. Hann bætti svo við öðru marki aðeins fjórum mínútum síðar.  

Giorgian De Arrascaeta kemur Úrúgvæ yfir.
Giorgian De Arrascaeta kemur Úrúgvæ yfir. AFP/Alfredo Estrella

Suður-Kóreu vann Portúgal, 2:1. Ricardo Horta kom Portúgal yfir á 5. mínútu. Young-Gwon Kim jafnaði fyrir Suður-Kóreu á 27. mínútu. Hee-Chan Hwang skoraði sigurmark Suður-Kóreu í uppbótartíma. 

Portúgal byrjaði með látum gegn Suður-Kóreu og hinn 28 ára gamli Ricardo Horta skoraði með góðu skoti úr teignum strax á 5. mínútu. Á meðan staðan var þannig og markalaus í leik Gana og Úrúgvæ voru Portúgal og Gana á leiðinni áfram. 

Gana fékk dauðafæri á 20. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd. André Ayew fór á vítapunktinn en Sergio Rochet varði slaka spyrnu hans og sá til þess að staðan væri enn markalaus. 

Sergio Rochet brýtur á Mohammed Kudus innan teigs.
Sergio Rochet brýtur á Mohammed Kudus innan teigs. AFP/Alfredo Estrella

Aðeins þremur mínútum síðar slapp Darwin Núnez einn í gegn fyrir Úrúgvæ en Mohammed Salisu gerði stórkostlega í að bjarga á línu og áfram var staðan markalaus. 

Fyrsta mark leiksins kom loks á 26. mínútu og það gerði Giorgian De Arrascaeta þegar hann skallaði í netið af stuttu færi eftir að Lawrence Ati varði frá Luis Suárez í dauðafæri. 

Young-Gwon Kim jafnaði fyrir Suður-Kóreu gegn Portúgal á 27. mínútu með marki af stuttu færi eftir hornspyrnu. Þrátt fyrir markið var Portúgal og Úrúgvæ enn á leiðinni áfram. 

Ricardo Horta kemur Portúgal yfir snemma leiks.
Ricardo Horta kemur Portúgal yfir snemma leiks. AFP/Odd Andersen

Staða Úrúgvæ styrktist enn frekar á 32. mínútu þegar Giorgian De Arrascaeta skoraði sitt annað mark og annað mark Úrúgvæ. Kláraði leikmaðurinn þá afar vel á lofti í teignum eftir sendingu frá Suárez. 

Portúgal var töluvert líklegra til að komast yfir í stöðunni 1:1 gegn Suður-Kóreu en Seung-gyu Kim varði nokkrum sinnum vel. Tilraunir portúgalska liðsins voru þó flestar fyrir utan teig og var Kim vandanum vaxinn. Staðan í hálfleik var því 1:1 hjá Portúgal og Suður-Kóreu. 

Hart barist hjá Úrúgvæ og Gana.
Hart barist hjá Úrúgvæ og Gana. AFP/Philip Fong

Mörkin urðu heldur ekki fleiri hjá Gana og Úrúgvæ og voru Úrúgvæjar því í afar góðri stöðu fyrir seinni hálfleikinn. Gana þurfti mörk í seinni hálfleik og Afríkuþjóðin fór vel af stað og sótti nokkuð að marki Úrúgvæ. Í hinum leiknum tókst Suður-Kóreu illa að skapa sér færi gegn Portúgal.

Facundo Pellistri hefði endanlega getað tryggt Úrúgvæ sigurinn gegn Gana en hann negldi boltanum rétt framhjá úr góðu færi á 66. mínútu. Antoine Semenyo fékk gott færi á 79. mínútu en hann setti einnig boltann rétt framhjá markinu. Mohammed Kudus átti svo gott skot örfáum mínútum síðar en þá varði Rochet vel í markinu. 

Cristiano Ronaldo er fyrirliði Portúgals.
Cristiano Ronaldo er fyrirliði Portúgals. AFP/Glyn Kirk

Staðan breyttist hins vegar þegar Hee-Chan Hwang kom Suður-Kóreu yfir í uppbótartíma og var Asíuþjóðin þá á leiðinni áfram með Portúgal, á kostnað Úrúgvæ. Lokatölur hjá Suður-Kóreu og Portúgal urðu 2:1, en enn voru átta mínútur eftir af leik Úrúgvæ og Gana þegar flautað var til leiksloka. Úrúgvæ þurfti þá eitt mark til viðbótar, til að komast áfram á kostnað Suður-Kóreu. 

Úrúgvæ sótti án afláts í uppbótartímanum, en það skilaði ekki marki og er liðið því úr leik, ásamt Gana. 

Luis Suárez hitar upp í dag.
Luis Suárez hitar upp í dag. AFP/Pablo Porciuncula

Lið Gana:
Mark: Lawrence Ati.
Vörn: Alidu Seidu, Daniel Amartey, Mohammed Salisu, Abdul Baba Rahman. 
Miðja: Mohammed Kudus, Thomas Partey, André Ayew (Osman bukari 46.), Salis Samed (Daniel-Kofi Kyereh 72.), Jordan Ayew (Kamaldeen Sulemana 46.). 
Sókn: Inaki Williams (Antoine Semenyo 72.). 

Lið Úrúgvæ:
Mark: Sergio Rochet. 
Vörn: Guilermo Varela, José Giménez, Sebastián Coates, Mathías Olivera. 
Miðja: Facundo Pellestri (Nicolás de la Cruz 66.), Federico Valverde, Rordigo Bentancur (Matías Vecino 35.), Giorgian De Arrascaeta. 
Sókn: Luis Suárez (Edinson Cavani 66.), Darwin Núnez. 

Lið Portúgals:
Mark: Diego Costa.
Vörn: Diego Dalot, Pepe, António Silva, Joao Cancelo.
Miðja: Matheus Nunes (Joao Palhinha 65.), Rúben Neves (Rafael Leao 65.), Vitinha (William Carvalho 82.).
Sókn: Joao Mario (Bernardo Silva 82.), Cristiano Ronaldo (André Silva 65.), Ricardo Horta.

Lið Suður-Kóreu:
Mark: Seung-gyu Kim.
Vörn: Moon-hwan Kim, Wyung-won Kwon, Young-Gwon Kim (Son Jun ho 81.), Jin-su Kim. 
Miðja: Kang-in Lee (Ui-Jo Hwang 81.), Woo-Young Jung, Jae-Sung Lee (Hee-Chan Hwang 66.), In-Beom Hwang, Heung-min Son. 
Sókn: Gue-sung Cho. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert