Hvernig fer hann að þessu?

Lionel Messi fagnar sigrinum á Áströlum í leikslok.
Lionel Messi fagnar sigrinum á Áströlum í leikslok. AFP/Manan Vatsyayana

Frammistaða Lionels Messi í þúsundasta mótsleik sínum á ferlinum í kvöld, þegar hann leiddi Argentínu til sigurs gegn Ástralíu í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Katar, hefur verið lofuð víða um heim.

Messi skoraði fyrra mark Argentínumanna og sýndi hvað eftir annað snilli sína, sérstaklega í síðari hálfleiknum þar sem hann lagði upp góð færi fyrir samherja sína eftir að hafa leikið mótherjana grátt.

Argentínskir áhorfendur á vellinum sungu „Messi, Messi, Messi," í leikslok.

Alan Shearer, sérfræðingur BBC og fyrrverandi markaskorari enska landsliðsins, sagði á BBC One: „Við sem vorum á vellinum vorum heppin að vera þar í kvöld og sjá hann. Þvílík frammistaða og við gátum talað um hæfileikana, metnaðinn og löngunina hjá honum. Hvernig hann tekur spretti með boltann, þar sem hann dregur að sér marga mótherja og losar þar með um samherja sína. Hvernig Messi nýtir sér plássið, hvernig hann heldur boltanum þrátt fyrir að sótt sé að honum úr öllum áttum. Hann getur allt. Í hvert skipti sem hann fær boltann standa áhorfendur á fætur. Engu máli skiptir hvar hann fær boltann, allir standa upp," sagði Shearer.

Múgur og margmenni fagnaði sigri Argentínu á götum Buenos Aires, …
Múgur og margmenni fagnaði sigri Argentínu á götum Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu, í kvöld. AFP/Luis Robayo

„Hann er ótrúlegur. Einn sá allra besti í sögunni. Við reyndum eins og við gátum að dást ekki að honum en hann er magnaður. Argentínumenn eiga að vera stoltir og ánægðir af því að eiga leikmann í þessum gæðaflokki," sagði Graham Arnold, þjálfari ástralska liðsins eftir leikinn.

Þetta var ekki aðeins þúsundasti leikur Messi á ferlinum, heldur var hann landsliðsfyrirliði Argentínu í 100. skipti. Markið er númer 789 í röðinni á ferlinum.

Rio Ferdinand, fyrrverandi landsliðsmiðvörður Englands, sagði á BBC One: „Þetta var besta frammistaða einstaklings á þessu heimsmeistaramóti. Maðurinn er guðum líkastur. Ég hef aldrei séð annað eins. Hvernig fer hann að þessu? Hann hefur svo ótrúlega yfirsýn. Hann leikur á mótherja, en sér samt allan völlinn, hvar allir eru staðsettir. Hann er einstakur."

Sjálfur vildi Messi fyrst og fremst tala um argentínsku áhorfendurna en ekki sjálfan sig eftir leikinn.

Argentínskir áhorfendur fagna á vellinum í Al Rayyan í kvöld.
Argentínskir áhorfendur fagna á vellinum í Al Rayyan í kvöld. AFP/Manan Vatsyayana

„Þetta er stórkostleg tilfinning og ég er virkilega ánægður með að deila þessari fallegu stund með stuðningsfólki okkar. Ég veit hversu mikið þau hafa lagt á sig til að koma hingað og ég veit að allir Argentínumenn vilja vera hér. Tengslin og samstaðan sem við deilum með fólkinu er falleg.

Ástríða áhorfendanna okkar, kraftur og gleði eru ótrúleg. Þau lifa sig algjörlega inn í leikinn og ég sé hvernig þau þjást og njóta. Það er einstakt. Þau eru spennt, eins og allir í Argentínu," sagði Lionel Messi.

Hann kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að þetta yrði þúsundasti leikur sinn á ferlinum fyrr en nokkrum tímum áður en hann hófst í Katar í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert