Sannfærandi Englendingar komnir í átta liða úrslit

Jordan Henderson fagnar því að hafa komið Englandi yfir í …
Jordan Henderson fagnar því að hafa komið Englandi yfir í leiknum. Jude Bellingham sem lagði upp markið er einnig á myndinni. AFP/Anne-Christine Poujoulat

England vann afar sannfærandi 3:0-sigur á Senegal í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Al-Kohr í Katar í kvöld.

Jordan Henderson kom Englandi í 1:0 með sínu fyrsta marki á HM á 39. mínútu. Fyrirliðinn Harry Kane kom liðinu svo í 2:0 í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir frábæra skyndisókn. Bukayo Saka kom Englandi í 3:0 á 58. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Phil Foden.

Harry Kane skorar annað mark Englands í leiknum.
Harry Kane skorar annað mark Englands í leiknum. AFP/Jewel Samad

England vann B-riðil keppninnar með sjö stig en Senegal varð í öðru sæti A-riðils með sex stig. Sigurvegarinn í þessum leik mætir Frökkum í átta liða úrslitum 10. desember.

John Stones fékk fínt skallafæri eftir um 20 mínútna leik eftir hornspyrnu en skallinn hans fór hátt yfir. Ismaila Sarr fékk svo frábært færi skömmu síðar þegar boltinn datt fyrir fætur hans í teignum eftir viðkomu í Kyle Walker. Leikmenn Senegals heimtuðu vítaspyrnu en þrátt fyrir að boltinn hafi haft viðkomu í hendi Walker var réttilega ekkert dæmt.

Bukayo Saka fagnar marki sínu með Phil Foden.
Bukayo Saka fagnar marki sínu með Phil Foden. AFP/Jewel Samad

Eftir rétt rúmlega hálftíma fékk Boulaye Dia svo mjög gott færi vinstra megin í teignum. Boltinn barst þá til hans og hann lét vaða með vinstri fæti en Jordan Pickford sá við honum með frábærri markvörslu.

Á 39. mínútu komust Englendingar svo í 1:0 en Jordan Henderson, leikmaður Liverpool, lagði boltann þá í netið eftir frábæran undirbúning Jude Bellingham. Var markið örlítið gegn gangi leiksins en Senegal hafði verið talsvert sterkari aðilinn rétt fyrir markið.

Englendingurinn Phil Foden með boltann í leiknum. Senegalinn Krepin Diatta …
Englendingurinn Phil Foden með boltann í leiknum. Senegalinn Krepin Diatta er til varnar. AFP/Jack Guez

Minnstu mátti muna að Harry Kane kæmi Englandi í tveggja marka forystu einungis tveimur mínútum eftir markið en hann skóflaði boltanum þá yfir markið úr teignum eftir fyrirgjöf Bukayo Saka. Fyrirgjöfin var aðeins of aftarlega fyrir Kane og þurfti hann því að teygja sig í boltann til að ná skoti.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom Kane Englandi svo í 2:0. Bellingham vann boltann þá á eigin vallarhelmingi og geystist á stað. Hann fann Phil Foden í góðu hlaupi sem setti Kane aleinan í gegn með sendingu í fyrstu snertingu en þessi mikli markaskorari gerði engin mistök og smellti boltanum fram hjá Edouard Mendy í marki Senegals. Reynist þetta vera það síðasta sem gerðist í fyrri hálfleiknum og staðan var því 2:0 í hálfleik.

Hressir stuðningsmenn Englands á Al Bayt vellinum með pappaspjald af …
Hressir stuðningsmenn Englands á Al Bayt vellinum með pappaspjald af Paul Scholes, fyrrverandi leikmanni Manchester United og enska landsliðsins. AFP/Adrian Dennis

Á 58. mínútu kom svo Arsenal-maðurinn Bukayo Saka Englandi í 3:0. Hann átti þá gott hlaup inn í teiginn þar sem Phil Foden fann hann með sinni annarri stoðsendingu í leiknum. Saka kláraði færið frábærlega í fyrstu snertingu með því að vippa boltanum yfir Mendy í markinu.

Eftir þriðja markið róaðist leikurinn mikið og virtust Englendingar eyða lítilli orku síðasta hálftímann eða svo. Samt sem áður gáfu þeir Senegal engin tækifæri til að koma af stað einhverri endurkomu en Englendingar stjórnuðu ferðinni algjörlega. Fátt fleira markvert gerðist í leiknum og svo fór að England vann sannfærandi 3:0-sigur.

Lið Englands:
Mark: Jordan Pickford.
Vörn: Kyle Walker, John Stones (Eric Dier 77.), Harry Maguire, Luke Shaw.
Miðja: Jordan Henderson (Kalvin Phillips 82.), Declan Rice, Jude Bellingham (Mason Mount 77.).
Sókn: Bukayo Saka (Marcus Rashford 65.), Harry Kane, Phil Foden (Jack Grealish 65.).

Lið Senegals:
Mark: Edouard Mendy.
Vörn: Youssouf Sabaly, Kalidou Koulibaly, Abdou Diallo, Ismail Jakobs (Fodé Ballo-Touré 85.).
Miðja: Pathé Ciss (Pape Gueye 46.), Iliman Ndiaye (Bamba Dieng 46.), Nampalys Mendy.
Sókn: Krepin Diatta (Pape Sarr 46.), Boulaye Dia (Famara Diedhiou 72.), Ismaila Sarr.

Byrjunarlið Englands í leiknum.
Byrjunarlið Englands í leiknum. AFP/Paul Ellis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert