Jesus gæti verið frá í þrjá mánuði

Gabriel Jesus ásamt Neymar eftir leikinn gegn Kamerún.
Gabriel Jesus ásamt Neymar eftir leikinn gegn Kamerún. AFP/Giuseppe Cacace

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Gabriel Jesus, framherji Arsenal, gæti verið frá í þrjá mánuði vegna meiðsla, ef hann þarf að gangast undir aðgerð á hné. 

Jesus sem byrjaði frammi í 0:1 tapi Brasilíu gegn Kamerún verður ekki meira með á heimsmeistaramótinu í Katar og það var fyrst talið að hann yrði frá í einn mánuð. 

En nú greinir brasilíski miðilinn SporTV frá því að þurfi Jesus að gangast undir aðgerð verður hann frá í a.m.k. þrjá mánuði. Hvort hann fari í hana mun læknisteymi Arsenal ákveða á komandi dögum. 

Ef svo er yrði þetta mikill missir fyrir Arsenal sem situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Jesus hefur verið lykilmaður í liði Arsenal og skorað fimm mörk og lagt jafnmörg upp í 14 leikjum á tímabilinu.  

mbl.is