Magnaður Mbappé skaut Frökkum í 8-liða úrslit

Kylian Mbappé var hreint út sagt magnaður í dag.
Kylian Mbappé var hreint út sagt magnaður í dag. AFP/Franck Fife

Evrópuslag Frakklands og Póllands í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta lauk með 3:1-sigri Frakka á Al Thumama-vellinum í Katar í dag.

Oliver Giroud skoraði fyrsta mark leiksins á 44. mínútu með laglegri afgreiðslu eftir sendingu frá Kylian Mbappé. Með þessu marki er Giroud kominn með 52 mörk fyrir franska landsliðið, mest allra. 

Mbappé var svo sjálfur á ferðinni og setti annað mark Frakka á 74. mínútu með góðu skoti. Mbappé skoraði svo sitt annað mark og þriðja mark Frakka á 90. mínútu með neglu í fjærhornið. Mbappé er nú með fimm mörk á þessu heimsmeistaramóti og níu samtals.

Robert Lewandowski setti svo sárabótarmark fyrir Pólverja á 9. mínútu uppbótartíma. 

Frakkland vann D-riðill keppninnar en Pólland endaði í öðru sæti C-riðilsins. Frakkland mætir annaðhvort Englandi eða Senegal í 8-liða úrslitunum. 

Fyrsti stundarfjórðungur leiksins var mjög líflegur. Frakkarnir héldu mestmegnis boltanum og kantmennirnir Kylian Mbappé og Ousmane Dembélé léku vel á varnarmenn Pólverja. 

Dembélé vann svo boltann á miðsvæðinu á 17. mínútu, fór fram hjá Grzeg­orz Krychowiak, og kom sér í gott skotfæri en skot hans var laust og neðarlega og beint í fangið á Wojciech Szczesny.

Hætta skapaðist inn í teig Pólverja á 20. mínútu er Griezmann tók boltann niður og reyndi að finna Oliver Giroud. Pólverjarnir komu þó boltanum í burtu og geystust í sókn. Þar fékk Lewandowski boltann nokkuð utan teigs og lét bara vaða en fram hjá fór boltinn, þó þetta hafi verið fínasta tilraun hjá framherjanum. 

Robert Lewandowski lætur vaða utan teigs.
Robert Lewandowski lætur vaða utan teigs. AFP/Odd Andersen

Á 29. mínútu fengu Frakkarnir dauðfæri. Þá unnu þeir boltann á miðsvæðinu, Antoine Griezmann kom honum á Dembélé sem sendi hann þvert fyrir markið á Giroud sem var með opið mark fyrir framan sig en setti boltann fram hjá.

Mbappé var enn og aftur líflegur á 35. mínútu er hann lék léttilega á Matty Cash vinstra megin í teignum og negldi boltanum en Szczesny varði vel frá honum. 

Skothríð var svo að marki Frakkana á 38. mínútu. Þá sundurspiluðu Pólverjar þá frönsku og Bartosz Bereszynski gaf boltann þvert fyrir á Piotr Zielinski sem var í góðri skotstöðu en skot hans var slakt og beint á Hugo Lloris. Hann fékk svo boltann aftur til sín en setti hann í Theo Hernández í seinna skiptið. Þar rann boltinn til Lewandowski sem ætlaði að rúlla honum inn en Raphael Varane bjargaði á marklínu. Þvílík færi. 

Frakkar refsuðu Pólverjum sex mínútum síðar. Þá fékk Mbappe boltann frá Dayot Upamecano og sendi Giroud í gegn. Framherjinn tók á móti boltanum og setti hann svo snyrtilega í fjærhornið fram hjá Szszesny og Frakkarnir voru þá komnir yfir, 1:0. 

Pólverjar fengu svo gott færi í næsta sókn en Jakub Kaminski tók þá boltann niður í teignum og skaut en varnarmenn Frakklands komust fyrir skotið. 

Olivier Giroud fagnar marki sínu en hann sló franska markametið …
Olivier Giroud fagnar marki sínu en hann sló franska markametið í leiknum í dag. AFP/Manan Vatsyayana

Frakkarnir héldu áfram að leika listir sínar í byrjun síðari hálfleiks og meðal annars setti Giroud hjólhestaspyrnu í netið en dómarinn var búinn að dæma á Varane áður og markið stóð því ekki.

Giroud fékk svo aftur færi á 66. mínútu er Jules Koundé sendi boltann þvert fyrir á hann en framherjinn setti boltann í hliðarnetið.

Hjólahestaspyrna Girouds.
Hjólahestaspyrna Girouds. AFP/Odd Andersen

Á 74. mínútu var svo komið að Kylian Mbappé. Þá kom Griezmann boltanum burt úr teig Frakka. Þar rataði boltinn til Giroud sem tók frábærlega á móti honum og kom boltanum á Dembélé sem fann Mbappé vinstra megin. Mbappé tók á móti boltanum sallarólegur og setti hann ofarlega fyrir mitt markið fram hjá varnarmönnum Pólverja og Szczesny og kom Frökkum í afar þægilega stöðu, 2:0.

Mbappé bætti svo við sínu öðru marki á 90. mínútu. Þá fékk hann boltann frá Marcus Thuram vinstra megin í teignum, tók eina snertingu til hliðar, og negldi boltanum í fjærhornið. Stórglæsilegt mark hjá stórstjörnu Frakka.

Kylian Mbappé fagnar fyrra marki sínu.
Kylian Mbappé fagnar fyrra marki sínu. AFP/Franck Fife

Pólland fékk svo vítaspyrnu á sjöundu mínútu uppbótartíma er boltinn fór í höndina á Upamecano. Lewandowski steig á punktinn en Lloris varði frá honum. 

Lloris var þó búinn að stíga af línunni og leikmenn Frakka voru mættir inn í sinn eigin teig áður en vítið var tekið og því fékk Lewandowski að taka spyrnuna aftur. 

Þá gekk honum betur, sendi Lloris í vitlaust horn, og renndi boltanum í netið, 1:3. 

Stuttu eftir það flautaði dómarinn til leiksloka og það eru því Frakkar sem fara í 8-liða úrslitin en Pólverjar eru á heimleið. 

Robert Lewandowski setur boltann í netið í seinni vítaspyrnunni.
Robert Lewandowski setur boltann í netið í seinni vítaspyrnunni. AFP/Kirill Kudryavtsev

Lið Frakk­lands: (4-3-3)
Mark: Hugo Ll­or­is.
Vörn: Ju­les Koundé (Axel Disasi 92.), Rap­hael Vara­ne, Dayot Upa­mecano, Theo Her­nández.
Miðja: Aurélien Tchouaméni (Youssouf Fofana 66.), Antoine Griezmann, Adrien Rabiot.
Sókn: Ousma­ne Dembé­lé (Kingsley Coman 76.), Oli­ver Giroud (Marcus Thuram 76.), Kyli­an Mbappé.

Lið Pól­lands: (4-5-1)
Mark: Wojciech Szczesny.
Vörn: Matty Cash, Kamil Glik, Jakub Kiwi­or (Jan Bednarek 87.), Bartosz Bereszynski.
Miðja: Jakub Kam­inski (Nicola Zalewski 71.), Piotr Ziel­inski, Grzeg­orz Krychowiak (Krystian Bielik 71.), Sebastian Szym­anski (Arkadiusz Milik 64.), Przemyslaw Fran­kowski (Kamil Grosicki 87.).
Sókn: Robert Lew­andowski.

Frakkarnir fagna marki Oliver Giroud.
Frakkarnir fagna marki Oliver Giroud. AFP/Manan Vatsyayana
Stórstjarnan Kylian Mbappe rétt fyrir leik.
Stórstjarnan Kylian Mbappe rétt fyrir leik. AFP/Javier Sorano
Frakkarnir Antoine Griezmann, Kylian Mbappe og Adrien Rabiot heilsa Pólverjunum …
Frakkarnir Antoine Griezmann, Kylian Mbappe og Adrien Rabiot heilsa Pólverjunum Robert Lewandowski og Wojciech Szczesny fyrir leik. AFP/Odd Andersen
mbl.is