Saka kemur aftur inn í lið Englands

Samkvæmt heimildum frá Englandi kemur Bukayo Saka aftur inn í …
Samkvæmt heimildum frá Englandi kemur Bukayo Saka aftur inn í byrjunarlið Englands gegn Senegal í kvöld. AFP/Paul Ellis

Búist er við því að Bukayo Saka, leikmaður Arsenal, byrja á hægri kantinum í liði Englands gegn Senegal á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í Katar í kvöld. 

Frá þessu greinir Skysports.

Saka byrjaði fyrstu tvo leiki enska liðsins og skoraði tvö mörk í þeim fyrri. Hann sat þó allan tímann á varamannabekknum í 3:0 sigri Englands á Wales í lokaleik B-riðilsins þar sem keppinautar hans Marcus Rashford og Phil Foden sýndu sín gæði. Sá fyrrnefndi setti tvö mörk og sá síðarnefndi eitt. 

Margir héldu að Saka hefði misst sætið sitt við það en svo virðist ekki vera og er búist við því að hann byrji í kvöld. Óljóst er hver af Rashford, Foden og Raheem Sterling byrji vinstra megin. 

Önnur vangavelta hjá enskum miðlum er hvort Kyle Walker eða Kieran Trippier byrji í hægri bakverði. Trippier byrjaði fyrstu tvo leiki Englands en Kyle Walker, sem hefur vanalega verið hægri bakvörður enska liðsins, var að glíma við meiðsli en spilaði þó leikinn gegn Wales. 

Hvað varðar aðrar stöður í liðinu er ekki búist við neinum breytingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert