Brasilía skoraði fjögur í fyrri hálfleik

Leikmenn Brasilíu fögnuðu mörkum sínum í fyrri hálfleiknum sérstaklega innilega …
Leikmenn Brasilíu fögnuðu mörkum sínum í fyrri hálfleiknum sérstaklega innilega sem lið. AFP/Antonin Thuillier

Brasilíumenn komust á sannfærandi hátt í átta liða úrslit heimsmeistaramóts karla í fótbolta í kvöld þegar þeir unnu stórsigur á Suður-Kóreu í Doha í Katar, 4:1.

Vinícius Júnior kom Brasilíu yfir á 7. mínútu og Neymar bætti við marki úr vítaspyrnu á 13. mínútu. Richarlison skoraði, 3:0, á 29. mínútu. Lucas Paquetá kom Brasilíu í 4:0 á 36. mínútu. Paik Seung-ho minnkaði muninn í 4:1 á 77. mínútu.

Brasilíumenn mæta Króötum í átta liða úrslitunum á föstudaginn kemur, 9. desember, klukkan 15.

Brasilía náði forystunni strax á 7. mínútu. Raphinha komst að endamörkum hægra megin og renndi boltanum í átt að vítapunkti. Vinícius Júníor fékk hann og skaut yfirvegað föstu skoti í hægra hornið, 1:0.

Vinícius Júnior skorar fyrir Brasilíu strax á 7. mínútu í …
Vinícius Júnior skorar fyrir Brasilíu strax á 7. mínútu í kvöld. AFP/Pablo Porciuncula

Brasilía fékk vítaspyrnu á 11. mínútu þegar brotið var á Richarlison. Neymar fór á vítapunktinn og skoraði á 13. mínútu, 2:0.

Alisson í marki Brasilíu varði glæsilega skot Hwang In-geom af 20 metra færi á 17. mínútu en boltinn stefndi upp í samskeytin.

Neymar fagnar eftir að hafa komið Brasilíu í 2:0.
Neymar fagnar eftir að hafa komið Brasilíu í 2:0. AFP/Pablo Porciuncula

Richarlison kom Brasilíu í 3:0 á 29. mínútu með glæsilegu marki eftir samleik við Marquinhos og Thiago Silva við vítateigslínuna. Richarlison slapp einn gegn markverðinum og skoraði af öryggi, eftir sannkallaða sambatakta en hann hóf atrennuna með því að halda  boltanum þrisvar á lofti með höfðinu. Þetta var þriðja mark hans á þessu heimsmeistaramóti.

Richarlison á leið í gegnum vörn Suður-Kóreu í aðdraganda þess …
Richarlison á leið í gegnum vörn Suður-Kóreu í aðdraganda þess að hann kom Brasilíu í 3:0. AFP/Manan Vatsyayana

Sýningin hélt áfram því á 36. mínútu spiluðu Brassarnir sig aftur glæsilega í gegn. Vinícius Junior komst að endamörkum vinstra megin og lyfti boltanum út í teiginn þar sem Lucas Paquetá tók hann viðstöðulaust innanfótar á lofti og stýrði honum í vinstra hornið, 4:0.

Lucas Paquetá fagnar eftir að hafa komið Brasilíu í 4:0.
Lucas Paquetá fagnar eftir að hafa komið Brasilíu í 4:0. AFP/Glyn Kirk

Kim markvörður Suður-Kóreu varði frá Raphinha af stuttu færi í uppbótartíma fyrri hálfleiksins. Richarlison komst líka í gott færi hægra megin í vítateignum en Kim varði frá honum.

Bæði lið fengu færi á fyrstu 90 sekúndum síðari hálfleiks og Son Heung-min komst einn gegn Alisson í marki Brasilíu sem varði vel frá honum.

Kim í marki Suður-Kóreu varði naumlega frá Raphinha á 55. mínútu og aftur á 62. mínútu.

Alisson í marki Brasilíu varði glæsilega hörkuskot frá Hwang Hee-chan á 68. mínútu.

Paik Seung-ho kom Suður-Kóreu á blað á 77. mínútu með glæsilegu skoti af 20 metra færi í hægra hornið, 4:1.

Neymar skorar annað mark Brasilíu af vítapunktinum, 2:0.
Neymar skorar annað mark Brasilíu af vítapunktinum, 2:0. AFP/Glyn Kirk

Hinn 39 ára gamli Dani Alves kom inn á sem varamaður hjá Brasilíu og átti skemmtilega skottilraun á 89. mínútu þegar hann klippti boltann á lofti hægra megin í vítateignum en skaut í varnarmann og í horn. Alves varð í kvöld elsti útispilari til að taka þátt í leik í útsláttarkeppni á HM og sló met Englendingsins Stanley Matthews frá árinu 1954.

Lið Brasilíu:
Mark: Alisson (Weverton 81.).
Vörn: Éder Militao (Dani Alves 63.), Marquinhos, Thiago Silva, Danilo (Bremer 72.).
Miðja: Casemiro, Neymar (Rodrygo 81.), Lucas Paquetá.
Sókn: Raphinha, Richarlison, Vinícius Júnior (Gabriel Martinelli 72.).

Lið Suður-Kóreu:
Mark: Kim Seung-gyu.
Vörn: Kim Moon-hwan, Kim Min-jae, Kim Young-gwon, Kim Jin-su (Hong Chul 46.).
Miðja: Hwang In-beom (Paik Seung-ho 65.), Lee Jae-sung (Lee Kang-in 74.), Jung Woo-young (Son Jun-ho 46.).
Sókn: Hwang Hee-chan, Cho Gue-sung (Hwang Ui-jo 80.), Son Heung-min.

Neymar og Kim Min-jae eigast við í leiknum í kvöld.
Neymar og Kim Min-jae eigast við í leiknum í kvöld. AFP/Manan Vatsyayana
Lið Brasilíu og Suður-Kóreu ganga inn á 974-leikvanginn í Doha …
Lið Brasilíu og Suður-Kóreu ganga inn á 974-leikvanginn í Doha í kvöld. AFP/Glyn Kirk
Richarlison og Son Heung-min eru lykilmenn í liðum Brasilíu og …
Richarlison og Son Heung-min eru lykilmenn í liðum Brasilíu og Suður-Kóreu. AFP/Nelson Almeida/Jung Yeon-je
mbl.is