Fjórir Úrúgvæjar til rannsóknar hjá FIFA

Edinson Cavani fær gula spjaldið frá dómara leiksins eftir að …
Edinson Cavani fær gula spjaldið frá dómara leiksins eftir að flautað hafði verið til leiksloka. AFP/Khaled Desouki

Framkoma fjögurra leikmanna úrúgvæska landsliðsins eftir að það var slegið út úr riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Katar er til skoðunar hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu.

Úrúgvæ vann Gana 2:0 í lokaleik H-riðils en það dugði ekki því liðið hefði þurft að skora eitt mark til viðbótar til að komast í sextán liða úrslitin.

Eftir leik mótmæltu margir leikmanna Úrúgvæ hástöfum við dómara leiksins en þeir töldu að þeir hefðu verið sviknir um tvær vítaspyrnur.

Edinson Cavani sló niður sjónvarpsskjá myndbandsdómgæslunnar (VAR) og José Giménez er sagður hafa gefið fulltrúa FIFA olnbogaskot í höfuðið. Diego Godín fyrirliði og Fernando Muslera markvörður eru einnig nefndir til sögunnar hjá FIFA.

Fjórmenningarnir geta átt yfir höfði sér refsingar vegna framkomunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert