Þjálfari Brasilíu allt annað en sáttur

Neymar huggar Gabriel Jesus eftir leikinn við Kamerún.
Neymar huggar Gabriel Jesus eftir leikinn við Kamerún. AFP/Giuseppe Cacace

Tite, landsliðsþjálfari Brasilíu í fótbolta, er allt annað en sáttur við fréttaflutning brasilískra miðla af meiðslum framherjans Gabriels Jesus, en Jesus leikur ekki meira á HM vegna meiðslanna.

Jesus varð fyrir hnémeiðslum í 0:1-tapi Brasilíu gegn Kamerún og verður frá keppni næstu mánuði vegna þessa. Brasilískir miðlar greindu í kjölfarið frá því að Jesus hefði spilað meiddur gegn Kamerún, en Tite er allt annað en sáttur við þann fréttaflutning.

„Þetta eru ekkert annað en lygar frá fólki sem vill öðrum illt. Við myndum aldrei leggja heilsu leikmanna í hættu til að vinna fótboltaleiki. Fólk sem lýgur svona þrífst á hatri, en ég ráðlegg því að finna sér eitthvað annað að gera,“ sagði Tite á blaðamannafundi.

Brasilía mætir Suður-Kóreu í 16-liða úrslitum í kvöld og verður flautað til leiks klukkan 19.

mbl.is