Bono hetja Marokkó sem fer í 8-liða úrslit í fyrsta sinn

Leikmenn Marokkó ærast af fögnuði eftir að Achraf Hakimi skoraði …
Leikmenn Marokkó ærast af fögnuði eftir að Achraf Hakimi skoraði úr fjórðu vítaspyrnu liðsins og tryggði þanni 3:0-sigur. AFP/Javier Soriano

Marokkó tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum HM karla í knattspyrnu með því að hafa betur gegn Spáni eftir vítaspyrnukeppni, 3:0, í 16-liða úrslitum í dag.

Marokkó skoraði úr þremur af fjórum vítaspyrnum sínum á meðan Spánn klúðraði öllum þremur spyrnum sínum.

Þar með er Marokkó komið í 8-liða úrslit HM í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar. Liðið er jafnframt eina Afríkuþjóðin í fjórðungsúrslitunum í ár, þar sem liðið mætir annað hvort Portúgal eða Sviss.

Marokkó kom öllum á óvart og vann F-riðil keppninnar og endaði með 7 stig. Spánn hafnaði í öðru sæti E-riðils með 4 stig. 

Fyrsta skot leiksins átti Achraf Hakimi á 12. mínútu þegar skot hans beint úr aukaspyrnu fór naumlega framhjá marki Spánverja.

Á 26. mínútu slapp Marco Asensio einn í gegn eftir laglega sendingu Jordi Alba en skot Asensio úr nokkuð þröngu færi fór í hliðarnetið við nærstöngina.

Sjö mínútum síðar lét Noussair Mazraoui vaða af löngu færi en Unai Simón var vel á verði í markinu.

Skömmu fyrir leikhlé fór Sofiane Boufal illa með Marcos Llorente utarlega í vítateignum vinstra megin, gaf fyrir á Nayef Aguerd sem átti fastan skalla af stuttu færi en hann fór naumlega yfir markið.

Staðan var því markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað líkt og sá fyrri og var raunar enn tíðindaminni.

Á 54. mínútu reyndi Dani Olmo hörkuskot utan af vinstri kanti sem Bono varði út fyrir vítateig.

Þegar um átta mínútur voru til leiksloka komst varamaðurinn Álvaro Morata í álitlega stöðu, þrumaði fyrir markið við endalínuna en á fjærstönginni vantaði einfaldlega samherja til þess að pota boltanum í netið.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma fékk Morata gott skallafæri á fjærstönginni eftir fasta fyrirgjöf annars varamanns, Carlos Soler, úr aukaspyrnu en skallinn talsvert yfir markið.

Undir blálokin, á fimmtu mínútu uppbótartímans, var Olmo nálægt því að tryggja Spánverjum dramatískan sigur en skot hans úr aukaspyrnu af löngu færi fór í gegnum pakkann áður en Bono varði til hliðar og aftur fyrir.

Úr hornspyrnunni náði Aymeric Laporte skalla en hann fór í varnarmann Marokkó, sem náði svo að hreinsa.

Skömmu síðar var flautað til leiksloka og því þurfti að grípa til framlengingar.

Á 100. mínútu hennar komst varamaðurinn Alejandro Balde í fínt færi utarlega í vítateignum en Hakimi komst í veg fyrir fast skotið.

Fjórum mínútum síðar slapp varamaðurinn Walid Cheddira einn í gegn eftir sendingu Azzedine Ounahi en skot hans of nálæg Simón sem varði með hægri fæti.

Í síðari hálfleik framlenginarinnar gerðist fátt markvert þar til undir blálokin þegar Spánverjar juku pressuna. Jawad El Yamiq bjargaði fyrst á ögurstundu þegar Pablo Sarabia gaf fyrir og á þriðju mínútu uppbótartíma skaut hann í stöngina eftir laglegt, viðstöðulaust skot á lofti.

Skömmu síðar rann framlengingin sitt skeið og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit.

Þar reyndust Marokkóbúar svo sannarlega hlutskarpari þar sem Sarabia skaut í stöng úr fyrstu spyrnu Spánverja og Bono varði svo frá Soles og Sergio Busquets.

Á meðan skoruðu Abdelhamid Sabiri, Hakim Ziyech og Achraf Hakimi en Simón varði spyrnu Badr Benoun.

Vítaspyrnukeppnin:

Abdelhamid Sabiri skoraði fyrir Marokkó - 1:0

Pablo Sarabia skaut í stöng fyrir Spán - 1:0

Hakim Ziyech skoraði fyrir Marokkó - 2:0

Carlos Soler brenndi af vítaspyrnu fyrir Spán, Bono varði - 2:0

Badr Benoun brenndi af vítaspyrnu fyrir Marokkó, Simón varði - 2:0

Sergio Busquets brenndi af vítaspyrnu fyrir Spán, Bono varði - 2:0

Achraf Hakimi skoraði úr vítaspyrnu fyrir Marokkó - 3:0

Lið Marokkó:
Mark: Bono.
Vörn: Achraf Hakimi, Nayef Aguerd (Jawad El Yamiq 84.), Romain Saiss, Noussair Mazraoui (Yahia Attiyat Allah 82.).
Miðja: Azzedine Ounahi (Badr Benoun 120.), Sofyan Amrabat, Selim Amallah (Abdelhamid Sabiri 82.).
Sókn: Hakim Ziyech, Youssef En-Nesyri (Walid Cheddira 82.), Sofiane Boufal (Abdessamad Ezzalzouli 66.).

Lið Spánar:
Mark: Unai Simón.
Vörn: Marcos Llorente, Rodri, Aymeric Laporte, Jordi Alba (Alejandro Balde 98.).
Miðja: Gavi (Carlos Soler 63.), Sergio Busquets, Pedri.
Sókn: Ferran Torres (Nico Williams 75. (Pablo Sarabia 119.)), Marco Asensio (Álvaro Morata 63.), Dani Olmo (Ansu Fati 98.).

Walid Regragui, þjálfari Marokko, tolleraður eftir sigurinn magnaða.
Walid Regragui, þjálfari Marokko, tolleraður eftir sigurinn magnaða. AFP/Glyn Kirk
Romain Saiss og Marco Asensio í baráttunni.
Romain Saiss og Marco Asensio í baráttunni. AFP/Kirill Kudyavtsev
Spánverjar stilla sér upp fyrir leikinn í dag.
Spánverjar stilla sér upp fyrir leikinn í dag. AFP/Glyn Kirk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert