Ramos með þrennu í stórsigri Portúgals

Goncalo Ramos skoraði þrennu í kvöld.
Goncalo Ramos skoraði þrennu í kvöld. AFP/Jewel Samad

Portúgal tryggði sér sæti í átta liða úrslitum HM karla í fótbolta í Katar með því að gjörsigra Sviss 6:1 í 16-liða úrslitunum. Goncalo Ramos skoraði þrennu og lagði upp eitt mark til viðbótar fyrir Portúgal.

Ramos, sem fékk tækifærið í fremstu víglínu á kostnað Cristiano Ronaldo, kom Portúgal yfir eftir rúmlega stundarfjórðungs leik og Pepe tvöfaldaði forystuna eftir rúmlega hálftíma leik.

Ramos skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Portúgals á 51. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði Raphael Guerreiro fjórða markið.

Manuel Akanji minnkaði muninn fyrir Sviss stuttu síðar. Ramos fullkomnaði svo þrennu sína um miðjan síðari hálfleikinn.

Varamaðurinn Rafael Leao rak svo smiðshöggið með sjötta markinu á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Portúgal fagnaði sigri í H-riðli keppninnar með sex stig á meðan Sviss endaði í öðru sæti G-riðils, einnig með sex stig. Portúgal mætir Marokkó í átta liða úrslitum á laugardag.

Þakkaði traustið svo um munaði

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað enda kom fyrsta mark leiksins eftir fyrsta skot Portúgals í honum.

Það skoraði Ramos á 17. mínútu með stórkostlegu skoti upp í samskeytin nær úr þröngu færi í vítateignum eftir sendingu Joao Félix.

Eftir markið skiptu Portúgalar um gír þar sem Otávio ógnaði með þrumuskoti fyrir utan teig skömmu síðar og Ramos komst í gott skotfæri rétt innan vítateigs en í bæði skiptin varði Yann Sommer.

Eftir hálftíma leik átti Xherdan Shaqiri frábæra tilraun beint úr aukaspyrnu en hún fór naumlega fram hjá markinu eftir örlitla snertingu Diogo Costa.

Skömmu síðar, á 33. mínútu, tvöfaldaði Pepe forystuna með þrumuskalla af stuttu færi eftir hornspyrnu Bruno Fernandes frá hægri.

Fimm mínútum síðar gerði Remo Freuler sig líklegan til þess að minnka muninn fyrir Sviss en náði ekki krafta í skalla sinn eftir fyrirgjöf Breel Embolo og Diogo Dalot hreinsaði svo frá rétt fyrir framan marklínuna.

Á 43. mínútu slapp Ramos einn í gegn eftir laglega stungusendingu Fernandes en Sommer varði skot hans niður í fjærhornið glæsilega aftur fyrir endamörk.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan því 2:0 fyrir Portúgal í leikhléi.

Snemma í síðari hálfleik, á 51. mínútu, skoraði Ramos annað mark sitt og þriðja mark Portúgals þegar hann stýrði fyrirgjöf Diogo Dalot á milli fóta Sommer af stuttu færi.

Aðeins fjórum mínútum síðar kom fjórða markið. Það skoraði Guerreiro með góðu skoti upp í þaknetið eftir snarpa sókn og sendingu Ramos inn fyrir.

Mörkunum var tekið að rigna inn og minnkaði Akanji muninn með marki af stuttu færi eftir hornspyrnu á 58. mínútu.

Um miðjan síðari hálfleik fullkomnaði Ramos svo þrennuna þegar hann fékk sendingu inn fyrir frá Félix og vippaði boltanum snyrtilega yfir Sommer.

Tíu mínútum fyrir leikslok átti Embolo flotta tilraun með hjólhestaspyrnu en hún fór af Dalot og naumlega fram hjá markinu.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma skoraði Leao, sem var nýkominn inn á sem varamaður, sjötta mark Portúgals með góðu skoti sem hafnaði í fjærhorninu.

Fimm marka sigur Portúgals reyndist því niðurstaðan.

Lið Portúgals:
Mark: Diogo Costa.
Vörn: Diogo Dalot, Pepe, Rúben Dias, Raphael Guerreiro.
Miðja: Otávio (Vitinha 74.), William Carvalho, Bernardo Silva (Rúben Neves 81.), Bruno Fernandes (Rafael Leao 87.).
Sókn: Goncalo Ramos (Cristiano Ronaldo 74.), Joao Félix (Ricardo Horta 74.).

Lið Sviss:
Mark: Yann Sommer.
Vörn: Edimilson Fernandes, Fabian Schär (Eray Cömert 46.), Manuel Akanji, Ricardo Rodriguez.
Miðja: Remo Freuler (Denis Zakaria 54.), Granit Xhaka, Xherdan Shaqiri, Djibril Sow (Haris Seferovic 54.), Ruben Vargas (Noah Okafor 66.).
Sókn: Breel Embolo (Ardon Jashari 89.).

Pepe fagnar marki sínu ásamt William Carvalho og Otávio.
Pepe fagnar marki sínu ásamt William Carvalho og Otávio. AFP/Adrian Dennis
Leikmenn Portúgals fagna eftir að Goncalo Ramos kom liðinu á …
Leikmenn Portúgals fagna eftir að Goncalo Ramos kom liðinu á bragðið. AFP/Paul Ellis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert