„Þetta er stórkostlegt afrek“

Walid Regragui tolleraður af leikmönnum Marokkó eftir sigurinn frábæra á …
Walid Regragui tolleraður af leikmönnum Marokkó eftir sigurinn frábæra á Spáni í dag. AFP/Glyn Kirk

Walid Regragui, þjálfari karlaliðs Marokkó í knattspyrnu, var að vonum í skýjunum eftir að liðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum HM í fyrsta sinn í sögunni með 3:0-sigri á Spáni í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitunum í dag.

„Þetta er stórkostlegt afrek og þeir [leikmennirnir] sýndu allir magnaða ákefð.

Við vissum að við myndum njóta stórfenglegs stuðnings og með hjálp hans knúðum við fram orkuna sem til þurfti til þess að sýna þessa frammistöðu í kvöld,“ sagði Regragui á blaðamannafundi eftir leik.

Hann bætti því við að Múhameð sjötti, konungur Marokkó, hafi slegið á þráðinn og óskað liðinu til hamingju með afrekið.

„Það er óraunverulegt fyrir Marokkóbúa að fá slíkt símtal. Hann hvetur okkur alltaf áfram, gefur okkur ráð og hvetur okkur til þess að gefa allt í verkefnin.

Skilaboðin frá honum eru alltaf þau sömu; hann er stoltur af leikmönnunum og okkur öllum. Af því leiðir að við viljum fara enn lengra og gera enn betur í næsta leik.“

Marokkó mætir Portúgal í 8-liða úrslitum HM í Katar næstkomandi laugardag.

mbl.is