Á eftir að ákveða hlutverk Ronaldos

Cristiano Ronaldo gæti þurft að sætta sig við bekkjarsetu í …
Cristiano Ronaldo gæti þurft að sætta sig við bekkjarsetu í átta liða úrslitum. AFP/Adrian Dennis

Portúgalski knattspyrnusnillingurinn Cristiano Ronaldo byrjaði á varamannabekk Portúgala er liðið vann Svisslendinga, 6:1, í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í gærkvöldi.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna, lék portúgalska liðið afar vel án fyrirliðans, sem er orðinn 37 ára gamall. Goncalo Ramos, sem kom inn í byrjunarliðið í staðinn fyrir Ronaldo, skoraði þrennu.

Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, segir að hlutverk Ronaldos það sem eftir lifir heimsmeistaramótsins eigi eftir að koma betur í ljós.

„Það er ekkert ákveðið í þeim efnum. Við erum mjög nánir og ég hef þekkt hann frá því hann var 19 ára,“ sagði Santos á blaðamannafundi eftir leik. Hann vildi lítið segja um hvort Ronaldo yrði í byrjunarliðinu gegn Marokkó í átta liða úrslitum.

„Hann verður pottþétt með. Allir leikmenn á bekknum eru þátttakendur, eins og þeir sem eru í byrjunarliðinu. Við sjáum til,“ sagði þjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert