Liverpool vill eina af stjörnum HM

Sofyan Amrabat átti stórgóðan leik fyrir Marokkó í gær.
Sofyan Amrabat átti stórgóðan leik fyrir Marokkó í gær. AFP/Karim Jaafar

Enska knattspyrnufélagið Liverpool er mjög áhugasamt um að kaupa Sofyan Amrabat, miðjumann Fiorentina og marokkóska landsliðsins. Amrabat hefur slegið í gegn með Marokkó á HM í Katar.

Átti Amrabat sérlega góðan leik gegn Spáni í 16-liða úrslitunum í gær. Átti stóran þátt í að Marokkó hélt hreinu og vann síðan í vítakeppni. 

Amrabat leikur sem djúpur miðjumaður og stöðvaði hann hvað eftir annað álitlegar sóknir Spánverja.

Blaðamaðurinn áreiðanlegi Fabrizio Romano greinir frá að frammistaða miðjumannsins á HM hafi vakið áhuga stærri félaga og er Liverpool eitt þeirra sem hafa áhuga á leikmanninum.

Brasilíumaðurinn Fabinho hefur átt erfitt uppdráttar hjá Liverpool á leiktíðinni og gæti Amrabat, sem er 26 ára, leyst hann af hólmi.

mbl.is