Argentína í undanúrslit eftir vítaspyrnukeppni

Argentínumenn fagna Lautaro Martínez eftir að hann skoraði úrslitamarkið í …
Argentínumenn fagna Lautaro Martínez eftir að hann skoraði úrslitamarkið í vítaspyrnukeppninni. AFP/Alberto Pizzoli

Argentínumenn eru komnir í undanúrslit heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu eftir sigur á Hollendingum í vítaspyrnu keppni eftir jafntefli, 2:2, í spennuþrungnum og framlengdum leik í Lusail í Katar í kvöld.

Nahuel Molina kom Argentínu yfir á 35. mínútu. Lionel Messi bætti við marki úr vítaspyrnu á 73. mínútu. Wout Weghorst minnkaði muninn fyrir Holland í 1:2 á 83. mínútu, nýkominn inn á sem varamaður, og jafnaði svo metin í 2:2 á elleftu mínútu í uppbótartíma.

Ekkert mark var skorað í framlengingu en Argentína vann vítaspyrnukeppnina 4:3 og leikinn þar með 6:5.

Argentína mætir Króatíu í fyrri undanúrslitaleik mótsins á þriðjudagskvöldið klukkan 19.

Argentínumenn voru heldur meira með boltann á fyrstu 15 mínútum leiksins en liðin sköpuðu sér engin marktækifæri.

Lionel Messi átti fyrstu alvöru marktilraunina á 22. mínútu en hann skaut yfir mark Hollands af 20 metra færi.

Steven Bergweijn komst í gott skotfæri í vítateig Argentínu á 24. mínútu en hitti ekki markið.

Rodrigo De Paul batt enda á fína sókn Argentínu á 33. mínútu en skaut beint á Noppert í hollenska markinu frá vítateig.

Argentína náði forystunni á 35. mínútu. Lionel Messi átti þá glæsilega sendingu inn í vítateiginn á Nahuel Molina sem slapp einn gegn Noppert í marki Hollands og náði að koma  boltanum framhjá honum í markið, 1:0 fyrir Argentínu.

Nahuel Molina fagnar ásamt Lionel Messi eftir að hafa komið …
Nahuel Molina fagnar ásamt Lionel Messi eftir að hafa komið Argentínu yfir á 35. mínútu. Hans fyrsta mark í 25 landsleikjum. AFP/Franck Fife

Messi sneri sér í vítateig Hollands á 40. mínútu og náði skoti að markinu en beint á Noppert markvörð.

Fjögur gul spjöld fóru á loft á lokamínútum fyrri hálfleiks, tvö á hvort lið. Argentína var yfir í hálfleik, 1:0.

Hollendingar voru meira og minna með boltann fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks án þess að finna glufur á vörn argentínska liðsins.

Messi átti gott skot úr aukaspyrnu af 20 metra færi á 63. mínútu þar sem  boltinn smaug hárfínt yfir þverslána á marki Hollendinga.

Argentína fékk vítaspyrnu á 71. mínútu þegar Denzel Dumfries braut á Marcos Acuna. Lionel Messi fór á punktinn á 73. mínútu og skoraði af miklu öryggi, 2:0 fyrir Argentínu.

Lionel Messi fagnar eftir að hafa skorað úr vítaspyrnu og …
Lionel Messi fagnar eftir að hafa skorað úr vítaspyrnu og komið Argentínu í 2:0. Hans 10. mark á heimsmeistaramóti. AFP/Franck Fife

Hollendingar komust inn í leikinn á 83. mínútu þegar Wout Weghorst, nýkominn inn á sem varamaður, minnkaði muninn með skalla eftir fyrirgjöf Steven Berghuis frá hægri kantinum og staðan 2:1 fyrir Argentínu.

Wout Weghorst fagnar eftir að hafa minnkað muninn fyrir Hollendinga …
Wout Weghorst fagnar eftir að hafa minnkað muninn fyrir Hollendinga í 1:2. AFP/Franck Fife

Engu munaði að Luuk de Jong jafnaði fyrir Holland tveimur mínútum síðar þegar hann átti skalla í hliðarnetið eftir fyrirgjöf frá Berghuis.

Leandro Paredes miðjumaður Argentínu fékk gula spjaldið eftir að hafa neglt boltanum inn í varamannaskýli Hollendinga á 89. mínútu. Varamennirnir þustu inn á  völlinn og nokkurn tíma tók fyrir dómarann að koma leiknum af stað á ný en Paredes og Virgis van Dijk fengu sitt gula spjaldið hvor. Í kjölfarið var 10 mínútum bætt við leiktímann.

Holland jafnaði á 11. mínútu í uppbótartíma leiksins, 2:2. Þeir fengu aukaspyrnu og í stað þess að skjóta renndi Cody Gakpo boltanum inn í vítateiginn á Wout Weghorst sem kom honum í markið.

Wout Weghorst fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Holland, 2:2, …
Wout Weghorst fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Holland, 2:2, í lok uppbótartímans. AFP/Alberto Pizzoli

Staðan því 2:2 og leikurinn framlengdur. Tíu gul spjöld litu dagsins ljós í venjulegum leiktíma og Argentínumenn fengu sex þeirra. Auk þess fóru þrjú gul spjöld á þjálfarateymi liðanna.

Engin marktækifæri litu dagsins ljós í fyrri hálfleik framlengingarinnar og staðan var 2:2 að honum loknum.

Lionel Messi átti skottilraun upp úr aukaspyrnu á 110. mínútu, rétt utan vítateigs, en boltinn fór yfir hollenska markið.

Gulu spjöldin voru áfram óspart notuð og voru orðin 15 talsins eftir 112 mínútur. Um það leyti kom Ángel Di Maria inn á sem varamaður hjá Argentínu.

Lautaro Martínez var nærri því að koma Argentínu yfir á 114. mínútu en hann skaut í Virgil van Dijk af stuttu færi. Enzo Fernández átti líka hættulegt skot mínútu síðar og boltinn skrúfaðist rétt yfir þverslána eftir að Noppert markvörður kom hönd í hann. Upp úr hornspyrnunni skallaði German Pezzella yfir mark Hollands.

Varamenn Hollands hópast að Leandro Paredes eftir að hann sparkaði …
Varamenn Hollands hópast að Leandro Paredes eftir að hann sparkaði boltanum í átt til þeirra á 89. mínútu. AFP/Odd Andersen

Lautaro Martinez átti hörkuskot á mark Hollands á 119. mínútu og Andries Noppert varði vel. Messi komst í skotfæri á vítateig á 120. mínútu en skaut í varnarmann og horn. Í kjölfarið varði Noppert þegar Di Maria reyndi skot beint úr hornspyrnunni og í kjölfarið átti Enzo Fernández hörkuskot í stöngina á marki Hollands.

En eftir orrahríð Argentínumanna að marki Hollendinga var framlengingin flautuð af. Staðan var 2:2 og þar með þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.

Virgil van Dijk tók fyrstu spyrnu Hollands en Emiliano Martínez markvörður Argentínu varði.

Lionel Messi tók fyrstu spyrnu Argentínu og skoraði, 3:2.

Steven Berghuis tók aðra spyrnu Hollands og Martínez markvörður Argentínu varði aftur.

Leandro Paredes tók aðra spyrnu Argentínu og skoraði, 4:2.

Teun Koopmeiners tók þriðju spyrnu Hollands og skoraði, 4:3.

Gonzao Montiel tók þriðju spyrnu Argentínu og skoraði, 5:3.

Wout Weghorst tók fjórðu spyrnu Hollands og skoraði, 5:4.

Enzo Fernandes tók fjórðu spyrnu Argentínu en skaut framhjá markinu.

Luuk De Jong tók fimmtu spyrnu Hollands og skoraði, 5:5.

Lautaro Martínez tók fimmtu spyrnu Argentínu og  skaut liðinu í undanúrslit, 6:5

Andries Noppert markvörður Hollands ver glæsilega í framlengingunni.
Andries Noppert markvörður Hollands ver glæsilega í framlengingunni. AFP/Alberto Pizzoli


Lið Hollands:
Mark: Andries Noppert.
Vörn: Jurrien Timber, Virgil van Dijk, Nathan Aké.
Miðja: Denzel Dumfries, Marten de Roon (Teun Koopmeiners 46.), Frenkie de Jong, Daley Blind (Luuk de Jong 64.)
Sókn: Memphis Depay (Wout Weghorst 78.), Cody Gakpo (Noa Lang 113.), Steven Bergwijn (Steven Berghuis 46.)

Lið Argentínu:
Mark: Emiliano Martínez.
Vörn: Cristian Romero (German Pezzella 78.), Nicolas Otamedi, Lisandro Martínez (Ángel Di Maria 112.)
Miðja: Nahuel Molina (Gonzalo Montiel 106.), Rodrigo De Paul (Leandro Paredes 66.), Enzo Fernández, Alexis Mac Allister, Marcos Acuna (Nicolas Tagliafico 78.)
Sókn: Julian Álvarez (Lautaro Martinez 82.), Lionel Messi.

Denzel Dumfries brýtur á Marcos Acuna og dæmd var vítaspyrna.
Denzel Dumfries brýtur á Marcos Acuna og dæmd var vítaspyrna. AFP/Patricia de Melo Moreira
Argentínumenn fagna Nahuel Molina eftir að hann kom þeim yfir …
Argentínumenn fagna Nahuel Molina eftir að hann kom þeim yfir á 35. mínútu. AFP/Franck Fife
Cody Gakpo og Alexis Mac Allister í skallaeinvígi á upphafsmínútunum …
Cody Gakpo og Alexis Mac Allister í skallaeinvígi á upphafsmínútunum í kvöld. AFP/Patricia de Melo Moreira
Hollendingar rétt fyrir upphafsflautið í kvöld.
Hollendingar rétt fyrir upphafsflautið í kvöld. AFP/Franck Fife
Lið Argentínu rétt fyrir upphafsflautið í kvöld.
Lið Argentínu rétt fyrir upphafsflautið í kvöld. AFP/Franck Fire
Lionel Messi kynntur til leiks á vellinum í kvöld.
Lionel Messi kynntur til leiks á vellinum í kvöld. AFP/Juan Mabromata
Memphis Depay og Lionel Messi eru lykilmenn í sóknarleik Hollands …
Memphis Depay og Lionel Messi eru lykilmenn í sóknarleik Hollands og Argentínu. AFP/Adrian Dennis/Alfredo Estrella
mbl.is