„Myndi alltaf velja Ederson frekar en Alisson“

Ederson, Alisson og Weverton á æfingu brasilíska liðsins í Katar …
Ederson, Alisson og Weverton á æfingu brasilíska liðsins í Katar á dögunum. AFP/Vincenzo Pinto

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Ruud Gullit skilur lítið í Tite, landsliðsþjálfara Brasilíu, og vali hans á aðalmarkverði liðsins.

Gullit, sem er sextugur, gerði garðinn frægan með liðum á borð við Feyenoord, PSV, AC Milan, Sampdoria og Chelsea en hann lék 66 A-landsleiki fyrir Holland.

Hann hefur starfað sem sérfræðingur hjá beIn Sports í kringum heimsmeistaramótið í Katar sem nú stendur yfir þar sem Brasilía er komið áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

„Það eru ákveðnir hlutir í leik Alisson sem trufla mig mikið,“ sagði Gullit þegar hann ræddi markvarðastöðuna hjá brasilíska landsliðinu.

„Það virðist slokkna á honum, sérstaklega þegar hann fær boltann í fætur. Þetta virðist gerast í hverjum einasta leik.

Ég myndi alltaf velja Ederson frekar en Alisson. Ederson er betri í að skila boltanum frá sér og mun öruggari,“ bætti Gullit við.

mbl.is