Neitaði að ræða dauða verkamanns í Katar

Fatma Samoura, framkvæmdastjóri FIFA.
Fatma Samoura, framkvæmdastjóri FIFA. AFP/William West

Fatma Samoura, framkvæmdastjóri Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA, neitaði að svara spurningum blaðamanna þegar hún var spurð út í andlát filippseysks verkamanns sem lést í Katar á dögunum.

The Athletic greindi frá því í gær að verkamaður hefði látist þegar hann vann að endurbótum á æfingasvæði í landinu sem Sádi-Arabía notaði meðal annars á meðan riðlakeppninni stóð.

Að minnsta kosti 6.500 manns hafa látist við ýmis verkefni sem snúa að uppbyggingu mannvirkja og leikvanga í kringum heimsmeistaramótið.

Á dögunum fór fram ráðstefna í Katar, tengd öryggismálum FIFA í Katar, og sat Samoura fyrir svörum fyrir hönd Alþjóða knattspyrnusambandsins á ráðstefnunni.

„Ég mun ekki svara neinum spurningum tengdu þessu atviki,“ sagði Samoura meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert