Hættir Neymar með landsliðinu?

Neymar hágrét þegar niðurstaðan í vítaspyrnukeppninni gegn Króatíu lá fyrir.
Neymar hágrét þegar niðurstaðan í vítaspyrnukeppninni gegn Króatíu lá fyrir. AFP/Adrian Dennis

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar sagði eftir ósigurinn gegn Króatíu í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í dag að óvíst væri hvort hann myndi leika áfram með landsliði Brasilíu.

Neymar jafnaði markamet Pelé fyrir brasilíska landsliðsins þegar hann kom því yfir með glæsilegu marki í framlengingunni, sínu 77. landsliðsmarki, en Króatar náðu að jafna og unnu í vítaspyrnukeppni. Brasilía er því á heimleið frá Katar.

„Ég ætla ekki að loka neinum dyrum hvað landsliðið varðar en það er alls ekki 100 prósent öruggt um að ég muni leika með því áfram," sagði Neymar sem er þrítugur og hefur leikið með landsliði Brasilíu frá 18 ára aldri.

„Ég þarf að hugsa þetta betur, hvað sé best fyrir mig og hvað sé best fyrir landsliðið," sagði Neymar sem hefur upplifað vonbrigði á þremur heimsmeistaramótum í röð.

„Þetta er hræðileg tilfinning. Ég held að hún sé verri en í síðustu heimsmeistarakeppni," sagði Neymar og vísaði til taps gegn Belgíu í átta liða úrslitunum á HM í Rússlandi árið 2018.

„Það er erfitt að finna réttu orðin til að lýsa þessari stundu. Við börðumst og ég er stoltur af liðsfélögum mínum, stoltur af þeim karakter sem þeir sýndu í vítaspyrnukeppninni," sagði Neymar sem hágrét í leikslok.

mbl.is