Sérstakt þegar Frakkland og England mætast

Hugo Lloris ver mark Frakka gegn Englandi í kvöld og …
Hugo Lloris ver mark Frakka gegn Englandi í kvöld og setur nýtt leikjamet með franska landsliðinu - spilar sinn 143. landsleik. AFP/Franck Fife

Hugo Lloris, fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu og enska liðsins Tottenham, segir að framundan sé mikill bardagi þegar Englendingar og Frakkar mætast í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í kvöld.

Þetta er í fyrsta skipti sem grannþjóðirnar við Ermarsundið mætast í útsláttarkeppni heimsmeistaramótsins en nú slást þær um sæti í undanúrslitunum.

„Það er mikill rígur á milli Englands og Frakklands, og hefur verið það lengi. Þetta eru tvær miklar fótboltaþjóðir en þessi rígur er til staðar í fleiri íþróttagreinum, til dæmis í rugby. Þetta eru tvö mjög sterk lið og það er sérstakt að Frakkland og Englands skuli mætast á heimsmeistaramóti. Englendingar eru mjög metnaðarfullir eins og við, þeir komu hingað til þess að verða heimsmeistarar og það er því okkar að gera allt sem við þurfum að gera til að vinna," sagði Lloris á fréttamannafundi í gær.

Enska liðið hefur þroskast mikið

Markvörðurinn sagði að enska liðið hefði tekið skref í rétta átt á undanförnum árum undir stjórn Gareths Southgate.

„Það hafa verið miklar framfarir hjá þeim. Ég tel að þetta enska lið hafi þroskast mikið og sé tilbúið til að berjast um stóru titlana. Þeir voru dálítið óheppnir í síðustu Evrópukeppni. Það höfðu orðið miklar breytingar á liðinu með tilkomu nýrrar kynslóðar leikmanna, sem eru klárir í þessa baráttu því þeir spila allir með bestu liðum Evrópu. Hér er allt til staðar fyrir stórleik og það er í höndum leikmanna að standa sig," sagði Lloris sem að óbreyttu setur nýtt landsleikjamet fyrir Frakkland í kvöld með því að spila sinn 143. landsleik.

Harry Kane er samherji Hugo Lloris hjá Tottenham.
Harry Kane er samherji Hugo Lloris hjá Tottenham. AFP/Jack Guez

Kane ein besta vítaskytta heims

Þeir Lloris og Harry Kane, fyrirliði Englands, eru samherjar hjá Tottenham, þar sem Kane er varafyrirliði, á eftir markverðinum. Þeir gætu mæst í taugatrekkjandi návígi ef leikurinn  fer í vítaspyrnukeppni.

„Kane er ein af bestu vítaskyttum heims en ég vona að þetta endi ekki með vítakeppni. En við verðum að vera tilbúnir fyrir hvaða sviðsmynd sem er. Þetta eru átta liða úrslit á heimsmeistaramóti, þetta er risastór viðburður og við vitum hvað hann þýðir fyrir áhorfendur og fyrir báðar þjóðir," sagði Lloris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert