„Íslendingar gefast aldrei upp“

Ummæli Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar í samtali við danska handknattleiksvefinn hbold …
Ummæli Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar í samtali við danska handknattleiksvefinn hbold í gærkvöld um þreytu hjá íslenska landsliðinu hafa vakið athygli Peter Bredsdorff handknattleiksþjálfara í Danmörku. Morgunblaðið/Ómar

„Það hljómar einkennilega í mínum eyrum ef Íslendingar segjast vera þreyttir. Ef ég ætti að búa til lista yfir þau landslið sem þreytast fyrst á stórmótum þá yrði Ísland í neðsta sæti. Íslendingar þreytast seint eða kvarta manna síðastir yfir þreytu,“ segir danski handknattleiksþjálfarinn Peter Bredsdorff í samtali við danska handknattleiksvefinn hbold.dk en hann er svokallaður sérfræðingur vefjarins á meðan heimsmeistarakeppnin í handknattleik karla stendur yfir.

Tilefni ummæla Bredsdorffs er viðtal hbold.dk við Ásgeir Örn Hallgrímsson, landsliðsmann Íslands í handknattleik, frá í gærkvöldi þar sem Ásgeir segir að þreytu sé farið að gæta í herbúðum íslenska liðsins og það kunni að skýra mörg mistök þess í sóknarleiknum við Makedóníu í gær.

Bredsdorff, sem um skeið var aðstoðarþjálfari danska landsliðsins, segir þessi ummæli koma sér spánskt fyrir sjónir og hann sé ekki tilbúinn að gleypa þau hrá.

„Íslenska landsliðið er þekkt fyrir endalausa baráttu og dugnað í gegnum tíðina. Það hefur endalaust trú á sigur og gefst aldrei upp. Á Íslandi er rík hefð fyrir góðum árangri og ég hef aldrei séð íslenskt landslið gefast upp og leggja árar í bát. Danir verða að búa sig undir hörkuleik gegn baráttuglöðu liði sem mun ekkert gefa eftir fyrr en flautað hefur verið til leiksloka,“ segir Bredsdorff sem telur að þrátt fyrir fjarveru Arnórs Atlasonar, Alexanders Peterssonar, Ólafs Stefánssonar og Ingimundar Ingimundarsonar eigi íslenska landsliðið möguleika á að vinna leikinn gegn Dönum þótt að hans mati sé möguleikinn e.t.v. ekki stór.

Bredsdorff segir helstu styrkleika íslenska landsliðsins vera góða vörn og markvörslu og hraðaupphlaup. Við þessum þáttum verði Danir að hafa skýr svör frá upphafi til þess að geta unnið leikinn í kvöld. „Danir verða að halda uppi fullum hraða í leiknum og reyna að láta Íslendinga vera með boltann eins mikið og þeir frekast mega. Sóknarleikur íslenska landsliðsins er ekki eins öflugur og stundum áður. Þeir eiga í erfiðleikum með uppstilltan sóknarleik og takist danska landsliðinu að halda aftur af hraðaupphlaupum Íslendinga og brjóta vörn þeirra á bak aftur á danska liðið að vinna leikinn,“ segir Bredsdorff.

„Það eru jákvæðar staðreyndir fyrir danska landsliðið að Arnór, Alexander og Ólafur leika ekki með íslenska landsliðinu. Þar af leiðandi er sóknarleikur íslenska landsliðsins ekki nærri því eins góður og verið hefur, það þýðir hins vegar ekki að Íslendingar verði Dönum auðveld bráð, síður en svo, en með réttum leik á að vera auðveldara að eiga við Íslendinga án þessara þriggja manna ef rétt er að staðið,“ segir Peter Bredsdorff, handknattleiksþjálfari og sérfræðingur danska handknattleiksvefjarins hbold.dk. iben@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert