Lazarov enn markahæstur

Ólafur Guðmundsson reynir að stöðva Kiril Lazarov á HM.
Ólafur Guðmundsson reynir að stöðva Kiril Lazarov á HM. AFP

Kiril Lazarov, stórskytta Makedóníu, er enn markahæsti leikmaður heimsmeistaramótsins í handknattleik þó hann sé löngu farinn heim á leið.

Makedónía féll úr leik í 16-liða úrslitum, en nú þegar aðeins þrír leikir eru eftir af mótinu er ólíklegt að nokkur muni skáka honum hvað markaskorun varðar.

Í sex leikjum skoraði Lazarov 50 mörk úr 81 skoti fyrir Makedóníu, sem þýðir 62% nýtingu. Næstur á eftir honum er Sérgio Lopes frá Angóla með 47 mörk og Amine Bannour frá Túnis er þriðji.

Frakkar mæta annað hvort Króatíu eða Noregi í úrslitum, og Slóvenía mætir tapliðinu í þeim leik í bronsleiknum, en helstu markaskorarar þeirra eru ólíklegir til þess að ná Lazarov.

Norðmennirnir Kristian Björnsen og Sander Sagosen eru næstir honum, en báðir hafa þeir skorað 36 mörk. Slóveninn Gasper Marguc er með 34 mörk og Frakkinn Nedim Remili hefur skorað 33. Markahæstur Króata er Luka Cindric með 32 mörk.

Lazarov er því enn með 14 marka forskot á þá leikmenn sem ekki enn hafa lokið leik á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert