Aldrei lent í svona hremmingum

Gunnar Magnússon og Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Gunnar Magnússon og Guðmundur Þórður Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef nú farið á ansi mörg stórmót og Gummi enn þá fleiri og ég held að við höfum aldrei lent í svona hremmingum,“ sagði Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, við mbl.is eftir að landsliðshópurinn sem fer á HM var tilkynntur á fréttamannafundi í dag.

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson fer ekki á HM vegna meiðsla og sömuleiðis markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson en þrír leikmenn sem ekki voru valdir í 20 manna hópinn fara á HM, markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson, örvhenta skyttan Teitur Örn Einarsson og leikstjórnandinn Haukur Þrastarson, sem var valinn sem 17. maður í hópinn.

„Það er mikið búið að ganga mikið á síðustu dagana, bæði meiðsli og veikindi og síðast nú eftir hádegi þegar ljóst varð að Guðjón Valur fer ekki með okkur. Hann hélt að hann væri orðinn góður af þessum meiðslum en eftir kortér á æfingunni í dag gaf þetta sig,“ sagði Gunnar en sin í vöðvafestingu við hnéð hefur verið að angra landsliðsfyrirliðann og haltraði hann af velli í fyrri hálfleik í leiknum gegn Hollendingum á æfingamótinu í Noregi í fyrradag.

„Við erum heppnir að eiga þrjá frábæra hornamenn en vitaskuld er slæmt að missa heimsklassaleikmenn sem Guðjón Valur er. En Stefán Rafn og Bjarki Már eru frábærir hornamenn og hafa verið tilbúnir í þessa stöðu lengi.“

Með heilsu hans í huga

Björgvin Páll Gústavsson og Ágúst Elí Björgvinsson skipa markvarðarstöðurnar en ekki þótti óhætt að velja Aron vegna meiðsla hans.

„Aron er búinn að vera að glíma við meiðsli í kviðnum og svo kom í ljós í morgun að þetta leit ekki vel út hjá honum og mikil áhætta að hann myndi kviðslitna hvenær sem er. Með heilsu hans í huga var ákveðið að skilja hann eftir en Aron var sjálfur tilbúinn að fórna sér fyrir land og þjóð en okkur þótti ekki rétt að velja hann með heilsu hans í huga. Við treystum Ágústi Elí hundrað prósent í þetta verkefni,“ sagði Gunnar.

Teitur Örn Einarsson er á leið á sitt fyrsta stórmót …
Teitur Örn Einarsson er á leið á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um valið á Teiti Erni umfram Rúnar Kárason sagði Gunnar:

„Teitur var að spila með liði sínu í Svíþjóð á milli jóla og nýárs þannig við höfðum ekki kost á að skoða hann á þessum tíma. Við höfðum hins vegar alltaf möguleika á að kalla hann inn til æfinga. Hann hefur verið hjá okkur á æfingum áður og var til að mynda að æfa með 20 ára landsliðinu um síðustu helgi. Það var því auðvelt að kippa honum inn með stuttum fyrirvara. Hann æfði með okkur í gær og í dag og við mátum stöðuna þannig að hann væri betri kostur. Rúnar er búinn að vera að glíma við meiðsli en við héldum í vonina um að hann myndi hrista þau af sér. Á endanum tókum við þá ákvörðun að það væri betra að vera með Teit frekar en Rúnar á þessum tímapunkti.

Nú einblínum við bara á verkefnið sem fram undan er. Í þessum hópi okkar eru margir ungir strákar sem eru framtíðarmenn og við erum með spennandi lið sem vonandi á eftir að ganga vel,“ sagði Gunnar Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert