„Það dó enginn“

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og alþjóð ætti að vera kunnugt um spilar Guðjón Valur Sigurðsson ekki með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik en Ísland mætir Króatíu í fyrsta leik sínum á mótinu í München í Þýskalandi á föstudaginn.

Meiðsli í hné urðu þess valdandi að Guðjón Valur varð að draga sig út úr hópnum og í fyrsta skipti frá árinu 1997 verður hann ekki með landsliðinu á stórmóti en Guðjón Valur hefur spilað á 21 stórmóti með því frá því hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir 20 árum.

„Ég er með vesen í einhverri sin í kringum hnéð á mér. Það er vont sem gerði það af verkum að ég gat ekki beitt mér að ráði. Ég vissi það þegar ég fór útaf í leiknum á móti Hollandi að ef þetta myndi verða svona slæmt eins og var þá, þá gæti þetta orðið niðurstaðan,“ sagði Guðjón Valur í samtali við mbl.is í dag.

Ætla að fá að titla mig sem aðdáanda númer eitt

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari sagði á fréttamannafundinum þegar HM-hópurinn var tilkynntur í gær en hann héldi í smá möguleika að Guðjón gæti komið á móts við liðið á síðari stigum keppninnar en það færi auðvitað eftir hvernig meiðslin þróuðust.

„Ég ætla ekki að setja neina einustu pressu á strákana sem eru nú komnir á mótið, þjálfarana né mig sjálfan að taka mig inn á mótið síðar. Ef ég kemst í stand og ef eitthvað kemur uppá eða Guðmundur metur það svo að landsliðið þurfi á mér að halda þá er ég eins og síðustu 20 árin síðasti maðurinn til að segja nei. En ég ætla ekki að sitja á hliðarlínunni og vona eftir því að það verði staðan. Ég ætla að fleygja mér á sófann, faðma fjölskyldu mína og fá að upplifa eitt stórmót sem aðdáandi og stuðningsmaður. Ég ætla að fá að titla mig sem stuðningsmaður númer eitt,“ sagði Guðjón Valur, sem er markahæsti landsliðsmaður heims í karlaflokki eins og Morgunblaðið upplýsti á sínum tíma.

Hversu oft hefur maður ekki séð Guðjón fagna marki með …
Hversu oft hefur maður ekki séð Guðjón fagna marki með þessum hætti. Ljósmynd/Uros Hocevar

Guðjón Valur heldur út til Þýskalands í fyrramálið. Hann segist ekki ætla að mæta á fyrstu leiki Íslands í keppninni.

„Ég ætla ekkert að trufla strákana og búa til einhverja aukapressu. Ég ætla að leyfa þeim að njóta þess að vera þarna og að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af gamla manninum. Ég ætla að njóta þess að fylgjast með þeim og vona innilega að þeim gangi alveg frábærlega.“

Búnir að vinna sér inn fyrir því að vera í þessu hópi

Hvernig leggst mótið í þig fyrir hönd íslenska liðsins?

„Bara vel. Mér finnst ungu strákarnir frábærir. Þeir eru í landsliðinu ekki af því að þeir eru ungir heldur eru þeir góðir. Það er enginn í þessum hópi af því að hann vann einhverja brandarakeppni eða er skemmtilegri en einhver annar. Það eina sem ég bið strákana að gera er að leggja sig fram, gera sitt besta og njóta þess að vera á þessu móti. Þeir eru búnir að vinna sér inn fyrir því. En þeir verða jafnframt að vita það að þegar mótinu lýkur þá erum við hvergi nærri komnir á leiðarenda. Það er ákveðinn tröppugangur í þessu og leiðin er löng og ströng. Ég vonast svo sannarlega að þeir muni eiga langan og farsælan feril fyrir höndum en það kostar líka ákveðnar fórnir, blóð svita og tár. Mér líst ótrúlega vel á strákana sem við erum að fá inn í landsliðið núna,“ sagði Guðjón.

Vona að Stefán og Bjarki geri stöðuna að sinni

Það kemur í hlut Stefáns Rafns Sigurmannssonar og Bjarka Már Elíssonar að fylla skarð Guðjóns Vals en Bjarki Már var kallaður inn í landsliðshópinn í gær eftir að Guðjón heltist úr leik vegna meiðslanna.

„Þessi staða verður vel mönnuð. Menn hafa gert mikið úr því að Stebbi eða Bjarki komist ekki á stórmót og það hefur verið svona ýtt í skóna á manni að maður sér kannski eitthvað fyrir. Ég hef verið valinn í landsliðið af því að þjálfararnir hafa talið sig hafa þörf fyrir mig og að ég hafi eitthvað fram að bjóða. Það sem er kannski vert að segja frá að samband okkar þriggja er mjög gott og ég bera mikla virðingu fyrir þeim báðum, bæði sem handboltamönnum og persónum. Ég ætla svo sannarlega að vona að þeir standi undir eigin væntingum en ekki einhverra annarra. Ég veit að þeir eru gríðarlega metnaðarfullir og góðir leikmenn. Ég vona að þeir standi sig vel og geri stöðuna að sinni,“ sagði Guðjón Valur.

Það verður skrýtið fyrir marga að sjá landsliðið á stórmóti án Guðjóns Vals en þessi frábæri leikmaður og leiðtogi í liðinu hefur svo oft glatt landsmenn með frábærum tilþrifum sínum í treyju númer 9. Hans verður sárt saknað á HM.

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Algjör óþarfi að vorkenna mér

„Elvar Örn verður næstur í níuna. Ég fór til hans í gær og sagði honum að hann gæti kannski stolið henni. Eins og ég sagði áðan þá verð ég til staðar ef þörf verður á. Ef ferð mín með landsliðinu er komin á enda þá er það bara þannig og nían fer á næsta líkama. Svona er bara gangur lífsins. Það eru fleiri íþróttamenn en ég sem hafa lent í því að missa af stórmóti. Það er algjör óþarfi að vorkenna mér. Ég get lofað því að ég hef séð það svartara heldur en þetta. Það dó enginn. Nú ætla ég bara að njóta þess til fulls að fylgjast með strákunum og vona að þeim gangi sem allra best,“ sagði Guðjón Valur sem verður fertugu í ágúst á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert