Þarf að finna tíma á HM fyrir skólann

Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Allir …
Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Allir eru þeir nú að taka þátt í stórmóti í fyrsta sinn með A-landsliðinu, Elvar 21 árs, Haukur 17 ára og Gísli Þorgeir 19. mbl.is/Hari

„Ég er með tölvuna og vonandi hef ég einhvern tíma til þess að  huga að náminu en það er ljóst að ég missi nokkuð úr skóla,“ sagði hinn 17 ára gamli Selfyssingur Haukur Þrastarson í samtali við mbl.is í morgun á Keflavíkurflugvelli þar sem hann var á leið með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótið í handknattleik í Þýskalandi. 

Haukur er á öðru ári í Fjölbrautaskólanum á Selfossi. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik í apríl á þessu ári þegar hann var enn 16 ára gamall og hefur skotið hratt fram á sjónarsviðið á handboltavellinum.

„Það var ekkert mál að fá frí úr skólanum þegar ég var  valinn í landsliðið,“ svaraði Haukur með bros á vör spurður hvort það hefði staðið í skólayfirvöldum Fjölbrautarskólans að gefa pilti leyfi úr skóla meðan landsliðið tekur þátt í HM, jafnvel fram undir mánaðarmót. „Ég verð að finna einhvern tíma til þess að blanda saman náminu og því að vera á HM í handbolta,“ sagði Haukur ennfremur sem lék sinn fyrsta A-landsleik áður en hann hafði aldur til þess að ljúka ökuprófi.

„Það var ekki hægt að segja nei takk við Guðmund þegar hann sagði mér að hann ætlaði að  velja mig í hópinn sem sautjánda mann. Að taka þátt í heimsmeistaramóti hefur verið draumur minn frá því ég var smástrákur. Það er hreint ótrúlegt að fá að vera með hópnum á HM. Ég er sautjándi maður og því enn óvíst hvort ég fæ tækifæri til að spila en bara það eitt að vera með og kynnast þessu öllu saman er alveg ótrúlegt,“ sagði Haukur af yfirvegun þrátt fyrir að vera truflaður frá kærkomnum morgunverði.

Spurður hvort honum hafi komið á óvart að vera einn þeirra sem valinn var til að taka þátt sagði Haukur ekki svo vera.

„Ég bjóst alveg eins við því að fara eins og ekki. Ég vissi vel að þótt ég færi ekki með á mótið í Ósló um síðustu helgi þá væri ég enn inni í myndinni hjá Guðmundi þjálfara. Við töluðum vel saman áður liðið fór til Noregs þar sem hann gerði mér grein fyrir hver staða mín væri. Ég notaði því dagana til þess að æfa á fullu heima á Selfossi og vera eins klár í slaginn ef ég yrði valinn.  Það var síðan bara mikil gleði þegar Guðmundur tilkynnti mér á þriðjudaginn að ég væri sautjándi maður í hópnum. Nú er bara að búa sig undir að vera klár í slaginn ef þörf verður á að tefla mér fram. Ég er fínu standi og hef jafnað mig á meiðslum í læri sem hafa gert mér gramt í geði síðustu vikur,“ sagði Haukur Þrastarson sem vafalítið verður einn allra yngri leikmaður sem A-landslið karla hefur teflt fram á heimsmeistaramóti í handknattleik ef til þess kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert