Fyrst og fremst hlakka ég til

Guðmundur Þ. Guðmundsson á æfingunni í München í dag ásamt …
Guðmundur Þ. Guðmundsson á æfingunni í München í dag ásamt aðstoðarþjálfurunum Gunnari Magnússyni og Tomasi Svensson. mbl.is/Ívar Benediktsson

„Við fáum ekki meiri tíma til þess að æfa á vellinum. Nú förum við bara yfir upptökur og tölum vel saman,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við mbl.is eftir að æfingu íslenska landsliðsins lauk í Ólympíuhöllinni í München fyrir stundu. Sólarhringur er nú í fyrsta leik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu en það hefur keppnina með viðureign við Króata sem höfnuðu í 5. sæti á Evrópumeistaramótinu fyrir ári.

„Við höfum búið okkur undir leikinn eins vel og kostur er, meðal annars þau tvö varnarafbrigði sem Króatar beita hvað mest. Einnig höfum við farið yfir helstu áherslur þeirra í sóknarleiknum. Nú er bara að koma að þeirri stund þar sem við förum til leiks með eitt yngsta ef ekki yngsta landslið sem Ísland hefur nokkurn tímann sent til leiks á heimsmeistaramótinu. Það er eiginlega það sem ég er spenntastur fyrir. Ég hlakka eiginlega til að sjá hvar liðið stendur,“ sagði Guðmundur Þórður og bætir við að kynslóðaskiptin hafi orðið hraðari en hann hafi gert ráð fyrir.

„Við verðum að átta okkur á því að vegferð okkar með þetta unga lið er í alvöru hafin. Ég er held að það komi okkur til góða að hafa marga unga leikmenn  í mörgum stöðum. Vonandi náum við hagstæðum úrslitum. Það skiptir miklu máli að fara vel af stað á mótinu og standa okkur með sóma. Að því er stefnt,“ sagði Guðmundur Þórður.

Telur þú að það geti brugðið til beggja vona?

„Það getur allt gerst vegna þess að við erum með marga leikmenn sem hafa aldrei leikið á stórmóti áður og þar á ofan hóp ungra leikmanna. Í þeirri stöðu getur ýmislegt gerst og þess vegna getur eitt og annað komið upp á.

Við vorum hins vegar með þetta lið gegn Noregi ytra á dögunum og í apríl í fyrra tefldum við mjög ungu liði fram gegn Frökkum og Norðmönnum á útivelli og það stóð sig mjög vel. Fyrst og fremst hlakka ég til að taka þátt í þessu með drengjunum.“

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Króatar hafa mjög reynt og lið, ekki satt?

„Alveg gríðarlega reynt lið sem hefur leikið lengi saman lítið breytt. Í undirbúningnum höfum við meðal annars horft á tveggja ára gamla leiki með króatíska liðinu vegna þess að það er nánast eins skipað í dag og þá. Króatar eru með svakalega sterkt lið, vel mannað og með mikla hefð á bak við sig.“

Þar af leiðandi verður það góð áskorun fyrir ungt íslenskt lið að mæta Króötum í upphafsleik HM 2019?

„Ég held að það sé ekkert verra en hvað annað. Við verðum bara að koma eins vel í gegnum leikinn og mögulegt er. Við skulum spyrja að leikslokum. Við ætlum að reyna að stríða þeim eins og mögulegt verður,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við mbl.is í Ólympíuhöllinni í München fyrir stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert