Sérsveitin mætt til München

Sérsveitin á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Sérsveitin á Keflavíkurflugvelli í morgun. Ljósmynd/Aðsend

„Við verðum á áhorfendasvæðinu og ætlum að koma fólkinu í gír svo það komi vel stemmt inn í leikinn,“ segir Benjamín Hallbjörnsson, betur þekktur sem Benni Bongó, sem er staddur í München í Þýskalandi þar sem íslenska handboltalandsliðið keppir sinn fyrsta leik á heimsmeistaramótinu í handbolta 2019 á móti Króatíu á morgun.

Benni er þar staddur ásamt níu öðrum liðsmönnum Sérsveitarinnar, stuðningsmannafélags sem stofnað var á síðasta ári og er ætlað að styðja handboltalandslið Íslands.

Þegar mbl.is náði af honum tali hafði hópurinn rétt lokið við að koma sér fyrir á hótelinu og var að næra sig áður en halda átti á Ólympíuleikvanginn til að kanna aðstæður.

„Við viljum breyta stuðningsmenningunni í handboltanum og gera hana svipaða því sem gerist hjá fótboltanum, en þó ekki eins því þetta eru gjörólíkar íþróttir,“ segir Benni, en hann lét af störfum sem formaður Tólfunnar, stuðningsmannafélags íslensku knattspyrnulandsliðanna, skömmu eftir heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla á síðasta ári.

Draumurinn að fá alla með

„Við erum með trommur með okkur, sérhannaða fána, lög og andlitsmálningu. Við ætlum alla leið með þetta, skemmta okkur fallega, vera jákvæð og til fyrirmyndar. Rífa stuðningsmennina með okkur þannig að liðið fái sem bestan stuðning.“

Þó að liðsmenn Sérsveitarinnar séu aðeins tíu úti í Þýskalandi segir Benni að draumurinn sé að kynnast þar öllum þeim sem virkilegan áhuga hafa á handbolta. „Með samstöðu er ýmislegt hægt og stuðningur skiptir gríðarlegu máli. Þó svo að við séum bara tíu að stýra þessu þá er það heildin sem skiptir máli. Allir sem eru hér úti og taka þátt eru með.“

Upphitun fyrir leikinn hefst í bjórgarði Ólympíuhallarinnar klukkan 14 að staðartíma á morgun.

mbl.is