Á heildina jákvætt þrátt fyrir tap

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari fylgist með leiknum í Ólympíuhöllinni í …
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari fylgist með leiknum í Ólympíuhöllinni í München í kvöld. AFP

„Okkur vantaði örlítið upp á að vinna,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik í samtali við mbl.is eftir fjögurra marka tap, 31:27, fyrir Króötum í hörkuleik á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

Guðmundur sagðist vera afar ánægður með leik liðs síns þrátt fyrir tapið.  „Við spiluðum frábæran leik lengi vel, ekki síst í sókninni. Ég var mjög ánægður með liðið,“ sagði Guðmundur Þórður. „Það komu kaflar í lok fyrri hálfleiks og eins í lok síðan í lok leiksins þar sem við misstum þá framúr okkur mjög hratt, ekki síst í fyrri hálfleik. Kaflinn í fyrri hálfleik var dýr en okkur tókst að vinna okkur út úr þeim vanda og komast yfir á nýjan leik þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.  Undir lokin þá vantaði þéttari varnarleik á kafla og hefðum þurft að standa betur á klippingarnar hjá Luka Cindric og eins tók þeim að losa mikið um Stepancic, örvhentu skyttuna.  Sóknarleikurinn var lengst af mjög góður en því miður komu stuttir kaflar sem reyndust dýrir,“ sagði Guðmundur Þórður og bætti við að vissulega væri menn svekktir en engu að síður væri hægt að vera ánægður með leik íslenska liðsins.

„Síðustu fimm til sex mínúturnar voru ekki nógu góðar, okkur gekk illa í sókninni og fengum til dæmis ekki vítakast sem mér fannst við eiga að fá. Síðan voru nokkrir brottrekstrar okkur dýrir en sumir þeirra voru ódýrar,“ sagði Guðmundur Þórður. „Það féllu nokkur atriði ekki með okkur, sumt var okkur að kenna, önnur ekki.

Við erum bara að máta okkur við þessi bestu lið. Fyrirfram þá vissum við ekki nákvæmlega hvar við stóðum í samanburði við þau bestu. Þegar upp var staðið þá var heildarmyndin hjá okkur jákvæð þrátt fyrir tap,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert