Fjögurra marka tap eftir hetjulega baráttu

Aron Pálmarsson reynir skot að marki Króata í leiknum í ...
Aron Pálmarsson reynir skot að marki Króata í leiknum í dag. AFP

Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði fyrir Króötum, 31:27, eftir hetjulega baráttu í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Ólympíuhöllinni í München í kvöld. Króatar voru tvemur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:14.

Íslenska liðið lék á köflum frábæran handknattleik en lokakaflarnir í fyrri og síðari hálfleik voru liðinu erfiðir. Þá skildi á milli hins þrautreynda króatíska liðsins og þess lítt reynda íslenska.

Næsti leikur íslenska landsliðsins verður við Spánverja á sunnudagskvöld.

Aron Pálmarsson gaf tóninn með fyrsta marki leiksins eftir tæplega mínútu leiks og aftur þegar hann Íslandi yfir, 2:1. Mikill hraði var í leiknum í upphafi og mörkin voru orðin átta, 4:4, þegar rúmlega átta mínútur voru liðnar af leiktímanum.

Áfram var hraðinn mikill og nánast skorað mark í hverri sókn fyrsta stundarfjórðunginn. Engu að síður var aðdáunarvert að sjá vinnsluna á varnarmönnum íslenska liðsins með Ólaf Gústafsson og Arnar Frrey Arnarsson í miðri vörninn.

Arnór Þór Gunnarsson kom Íslandi í fyrsta sinn í tveggja marka forskot með marki úr vítakasti, 11:9, eftir 18 mínútur. Elvar Örn kom Íslandi síðan í þriggja marka forystu , 14:11, að loknum 24 mínútum að leiktímanum.  Í næstu sókn var möguleiki á að njá fjögurra marka forskoti. Sá möguleiki gekk íslenska liðinu úr greipum. Króatar skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu metin, 14:14, þegar þrjár mínútur voru til loka hálfleiksins og voru ansi hreint snöggir af því, ekki síst þegar þeir náðu að vera manni fleiri eftir klaufalegt brot Ýmis Arnar Gíslasonar.  Króatar bættu tveimur mörkum við áður en hálfleikurinn var úti án þess að íslenska liðinu tækist að svara fyrir sig. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:14, Króötum í hag, eftir slæman sex mínútna kafla íslenska liðsins þar sem hvorki gekk né rak í sóknarleiknum.

Þegar á heildina var lítið var fyrri hálfleikur samt afar góður lengst af og gaf fyrirheit að íslenska liðið væri sannarlega klárt í slaginn. 

Króatar  náðu mest þriggja marka forskoti, 20:17. Íslenska liðið var hinsvegar ekki af baki dottið. Varnarleikurinn hrökk í gang og Ágúst Elí Björgvinsson mættir í markið eftir nærri 10  mínútur og tók að verja allt hvað af tók. Bætt vörn og markvarsla skilaði sér í hraðaupphlaupum og skyndilega var staðan orðin jöfn, 22:22, þegar 14 mínútur voru liðnar af hálfleiknum.

Ómar Ingi Magnússon, sem hafði verið daufur lengst af, skoraði 23.mark Íslands og kom liðinu yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni, 14:13.  Hann bætti við öðru marki í næstu sókn eftir frábæran undirbúning Arons Pálmarssonar sem fór hreinlega á kostum í leiknum, tók leikinn hreinlega í sínar hendur strax í upphafi og lét það tak aldrei af hendi.  Staðan var orðin, 24:22, og Lino Cervar hinn þrautreyndi þjálfari Króata sá ekkert annað í stöðunni en að taka leikhlé.  Pirringur var kominn leikmenn hans sem virtust eiga erfitt með að taka mótlætinu.  Leikhléið skilaði sínu. Tvö króatísk mörk gegn engu íslensku fylgdu í kjölfarið og leikurinn orðinn jafn á ný.

Aron kom íslenska liðinu yfir, 26:25, þegar rúmar níu mínútur voru eftir með einu af þrumuskotum sínum sem þandi út netmöskvana hjá Marin Sego markverði.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, tók leikhlé sex mínútum fyrir leikslok, marki undir, 27:26.  Leikhléið skilað ekki tilætluðum árangri. Króatar leittu sóknarmenn okkar í gildrur eða að markvörður þeirra varði skotin sem komu á markið. Skyndilega var munurinn orðinn þrjú mörk, 29:26 og fjórar mínútur eftir. Það dró verulega úr sigurvonum íslenska liðsins.

Íslenska liðið getur borið höfuðið hátt þrátt fyrir tapið. Það lék afar vel lengst af gegn þrautreyndu krótísku landsliðið sem kann öll trikkin í bókinni og átti í mesta basli lengst af leiksins. Frammistaðan verður aðeins til þess að styrkja leikmenn í næstu leikjum en strax á sunnudaginn mætir íslenska liðið Evrópumeisturum Spánverja.

Ísland 27:31 Króatía opna loka
60. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með sigri Króatíu 31:27. Margt jákvætt í leik íslenska liðsins og að mörgu leyti fín frammistaða gegn sterkum andstæðingi en liðin voru jöfn þegar sjö mínútur voru eftir. Króatar eru þaulvanir því að landa sigri í jöfnum leikjum á stórmótum og það sást vel á lokakafla leiksins.
mbl.is