Klippt aftan af þjóðsöngnum - HSÍ kvartar

Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Ólympíuhöllinni í München í kvöld. AFP

HSÍ ætlar í kvöld að leggja inn formlega kvörtun til mótstjórnar heimsmeistaramótsins í handknattleik vegna þess að klippt var hressilega aftan af íslenska þjóðsöngnum þegar hann var leikinn fyrir viðureign Íslands og Króatíu í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, er með landsliðinu í München. Hann staðfesti við mbl.is eftir leikinn í kvöld að formleg kvörtun vegna framkomu við þjóðsöng Íslands verði send inn í kvöld. Algjörlega óviðunandi væri að þjóðsöngurinn væri ekki leikinn frá upphafi til enda eins venjulega væri gert.

Þess má geta að stuðningsmenn íslenska landsliðsins á áhorfendapöllunum í München gerðu tilraun til þess að halda söng sínum áfram og ljúka þjóðsöngnum. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði þar sem þjóðsöngur Króata var umsviflaust settur í loftið. 

mbl.is