Króatar fái ekki yfirhöndina í stúkunni

Benni segir Sérsveitina ekki ætla að láta Króatana komast upp ...
Benni segir Sérsveitina ekki ætla að láta Króatana komast upp með það að vera með yfirhöndina. Ljósmynd/Aðsend

„Það bætist sífellt í hópinn og nú styttist í leikinn, ég myndi halda að hingað væru komnir þrjú til fjögur hundruð manns,“ segir Benni Bongó, forsvarsmaður Sérsveitarinnar sem heldur uppi stemmningu í Ólympíuhöllinni í München fyrir leik Íslands og Króatíu sem hefst nú klukkan 17.

„Við erum með trommurnar og syngjum og tröllum, og svo eru hér gallharðar dömur sem mála þá sem vilja andlitsmálun. Það eru ýmist stór verkefni, allt andlitið, eða bara nokkur strik.“

Aðspurður segir hann Króata einnig byrjaða að fjölmenna á svæðið. „Þeir eru líka helvíti margir. Ég hef orðið var við mikið af köflótta búningnum fræga og býst við því að það muni heyrast vel í þeim í stúkunni.“

En Benni segir Sérsveitina ekki ætla að láta Króatana komast upp með það að vera með yfirhöndina. „Við ætlum að keyra alla Íslendingana í gang til þess að taka þátt og valta yfir hverja þá sem eru andstæðingar okkar í stúkunni. Í þetta sinn eru það Króatarnir, og þó að þeir séu fleiri þá erum við háværari.“

Benni segir gríðarlega stemmningu í höllinni þrátt fyrir kulda og ...
Benni segir gríðarlega stemmningu í höllinni þrátt fyrir kulda og snjó fyrir utan. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is