Níu marka tap hjá Degi og lærisveinum

Tatsuki Yoshino og félagar í japanska landsliðinu réðu illa við ...
Tatsuki Yoshino og félagar í japanska landsliðinu réðu illa við hinn sterka línumanna landsliðs Makedóníu, Stojanche Stoilov enda er kappinn rammur af afli. AFP

Japanska landsliðið, undir stjórn Dags Sigurðssonar, tapaði fyrir landsliði Makedóníu, 38:29, í fyrsta leik B-riðils, þess sem íslenska landsliðið á sæti í, á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München en leiknum var að ljúka.

Japanska landsliðið lét Makedóníumenn hafa fyrir sigrinum þótt það kæmist aldrei yfir í síðari hálfleik. Japanir voru aldrei langt undan og í 50 mínútur héldu þeir Makedóníumönnum við efnið. Þeir virtust hinsvegar vera orðnir þreyttir undir lokin og misstu þar af leikinn niður í níu marka tap eftir að hafa verið fjórum mörkum undir, 30:26, þegar rétt rúmlega 10 mínútur voru eftir af leiktímanum.  Munurinn á liðunum var lengst af þrjú til fimm mörk. 

Japan var yfir, 4:3, snemma leiks en þá skoruðu Makedóníumenn fjögur mörk í röð og voru yfir það sem eftir var. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 18:13, Makedóníu í dag. Makedóníumenn léku með sjö sóknarmenn allan síðari hálfleikinn og það tók sinn toll af japanska liðinu þegar á leið sem er skiljanlegt enda er mjög mikill líkamlegur styrkleikamunur á þessu liðum. 

Þrátt fyrir níu marka tap geta japönsku leikmennirnir nokkuð vel við unað. Þeir eru kvikir og fljótir og virtust hafa gaman af því sem þeir voru að gera þótt margt af því hafi ekki tekist sem skildi. 

Kiril Lazarov var markahæstur Makedóníumanna með 8 mörk, Dejan Manaskov skoraði 7 og Stojanche Stoilov 6. Hjá Japan var Jin Watanabe atkvæðamestur með 5 mörk og Hiroki Shida skoraði 4.

Borko Ristovski varði 19 skot í markinu og var hlutfallsmarkvarsla hans 45% á sama tíma og markavarðapar japanska liðsins var með 19%.

Íslenska landsliðið mætir japanska landsliðinu á miðvikudaginn og Makedóníu daginn eftir.

mbl.is